Vel útfært kaupréttarkerfi getur skipt sköpum
Það er mikilvægt fyrir framtíðarhagvöxt og áframhaldandi velsæld í íslensku samfélagi að huga stöðugt að öflugri umgjörð fyrir nýsköpun. Vel útfært kaupréttarkerfi og hagstætt skattalegt umhverfi geta þar skipt sköpum. Því skiptir máli að stjórnvöld stígi enn ákveðnari og stærri skref í þá átt að stuðla að skilvirku skattaumhverfi fyrir kauprétti nýsköpunarfyrirtækja. Þetta segja Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, og Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi Florealis, stjórnarmaður í Samtökum sprotafyrirtækja og fulltrúi í Vísinda- og nýsköpunarráði, í grein sinni á Vísi.
Kaupréttir geta leikið lykilhlutverk
Þær segja að í upphafi sé nýsköpunarfyrirtæki í raun aðeins hugmynd og fyrir höndum sé flókið og krefjandi verkefni við að byggja upp nýtt fyrirtæki frá grunni. Fram undan sé þrotlaus vinna við rannsóknir og þróun, stefnumótun, fjármögnun, viðskiptaþróun, uppbyggingu dreifileiða, markaðssetningu og sölu. En mikilvægasta verkefnið sé að byggja upp hæft teymi til að leiða þessa vinnu þannig að hugmyndin raungerist og úr verði öflugt fyrirtæki. Þar geti kaupréttir leikið lykilhlutverk.
Þá kemur fram í grein Nönnu og Kolbrúnar að viðkvæm sprotafyrirtæki þurfi að fá rými og næringu til þess að vaxa og dafna. Velgengni sprotafyrirtækja byggi í upphafi að miklu leyti á fámennu teymi sem beri ábyrgð á afdrifum fyrirtækisins. Fjármagn sé yfirleitt af skornum skammti og starfsaðstæðurnar geti verið mjög krefjandi. Eigi að síður þurfi að laða að hæfileikaríkt fólk sem sé tilbúið að vinna hörðum höndum að vexti fyrirtækisins og skapi tryggð þannig að það velji að vinna fyrir sprotafyrirtæki, meira að segja þegar aðrir öruggari kostir standa til boða.
Kaupréttir koma aldrei í stað sanngjarna launa
Þær segja að með því að ganga til liðs við sprotafyrirtæki fái starfsfólk tækifæri til þess að vera hluti af einhverju nýju og spennandi, en það sé ekki alltaf nóg eitt og sér. Starfsfólk sem sé tilbúið að fara í þá óvissu sem felist í því að vinna hjá nýsköpunarfyrirtæki á fyrstu skrefum ætti að fá ríkulega launað fyrir sína vinnu, sérstaklega ef þeirra framlag skilar verðmætaaukningu. Kaupréttir í nýsköpunarfyrirtækjum séu því mikilvægt tól fyrir starfsfólk og stjórnendur sem taki oft á sig launalækkun samhliða því að taka áhættu í þágu framfara og hagvaxtar, að breyta hugmynd í öflugt og jafnvel alþjóðlegt fyrirtæki. Það sé einnig mikilvægt fyrir hluthafa nýsköpunarfyrirtækja að allir gangi í takt við framtíðarsýn fyrirtækisins og að teymið sé um borð þrátt fyrir að á móti blási. Vel útfært kaupréttarkerfi fyrir starfsmenn í nýsköpunarfyrirtækjum geti skapað aukið traust og virkað sem frábær hvati, þar sem starfsmennirnir fái beinan fjárhagslegan ávinning ef vel gengur. Þær segja að þó sé mikilvægt að taka fram að kaupréttir geti aldrei komið í stað sanngjarnra launa fyrir starfsfólk.
Varfærin en mikilvæg skref tekin til bóta á kaupréttarkerfi hér á landi
Í greininni segja þær Nanna og Kolbrún að nágrannalönd Íslands, svo sem Svíþjóð og Eystrasaltslöndin, hafi innleitt í lög reglur sem miði að því að starfsfólk sitji ekki uppi með hærri skattbyrði en gengur og gerist í tilvikum almennra fjárfesta þegar verðmæti fyrirtækis aukist. Í íslenskri skattalöggjöf sé litið á hagnað sem starfsfólk og stjórnarmenn hljóti af kaupréttum sem starfstengda launagreiðslu sem sæti sömu skattalegu meðferð og aðrar launagreiðslur. Á sama tíma og almennir fjárfestar greiði fjármagnstekjuskatt komi til hagnaðar. Þær segja að í vor hafi tekið gildi jákvæðar breytingar á tekjuskattslögum í tilviki smæstu fyrirtækjanna. Ef fyrirtæki velti undir 650 milljónum króna og hafi færri en 25 starfsmenn sé ágóði af kaupréttum skattlagður sem fjármagnstekjur. Með þessu hafi verið tekin afar varfærin en mikilvæg skref til bóta á kaupréttarkerfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi.
Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Vísir, 9. september 2023.