Fréttasafn



24. feb. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Velja ætti íslenska hönnun í nýbyggingar hins opinbera

Rætt er við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, í ViðskiptaMogganum sem segir að með því að velja íslenska hönnun inn í nýbyggingar sem eru að rísa í miðborginni myndu opinberir aðilar styðja við iðnaðinn á krefjandi tímum og jafnframt myndi fordæmið hafa jákvæð áhrif á eftirspurnina til framtíðar.  Í ViðskiptaMogganum kemur fram að um sé að ræða nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, nýja skrifstofubyggingu Alþingis, nýjan meðferðarkjarna við Landspítalann og Hús íslenskra fræða, ásamt því sem til stendur að byggja við Stjórnarráðið þar sem samanlögð fjárfesting vegna þessa sé ekki undir 70 milljörðum. 

Stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi

Í fréttinni segir að við undirbúning þessara framkvæmda hafi fulltrúar Landsbankans meðal annars kynnt sér húsgögn í ferð til Lundúna. En samkvæmt upplýsingum frá bankanum hafi engin ákvörðun verið tekin um húsgögn í húsinu. Jóhanna Klara segir við blaðamann, Baldur Arnarson, að þetta sé athyglisvert í ljósi þess að stjórnvöld og atvinnulífið standa nú fyrir átaksverkefninu Látum það ganga, sem gangi út á að hvetja til kaupa á íslenskri vöru og þjónustu. „Auðvitað eiga stjórnvöld að ganga þar á undan með góðu fordæmi. Sérstaklega nú þegar mikil samfélagsleg uppbygging er í gangi. Það á auðvitað að vera stefnan, ekki síst við aðstæður sem þessar, að velja íslenskt og upphefja þannig íslenska hönnun og húsgögn.“

Eigum að vera stolt af íslenskri hönnun og framleiðslu í byggingum okkar

Í fréttinni kemur fram að málið varði ekki síst dýrari hönnunarvöru en höfundarréttargreiðslur séu stór hluti af verði slíkra innfluttra húsgagna. Það aftur skapar tækifæri fyrir íslenska hönnuði og framleiðendur. Þegar blaðamaður spyr hana hvað beri að gera til að stuðla að slíkum viðskiptum segir Jóhanna Klara stefnumótunina mikilvæga og að mati SI hafi það skort í menningu okkar að huga að þessu. „Það er miklu meira gert af þessu á Norðurlöndunum. Ef við tökum Danmörku sem dæmi er þetta hluti af ferlinu við opinbera uppbyggingu. Málið snýst um að í upphafi skyldi endinn skoða og hvað gæti verið inni í þessum byggingum. Með hönnunarsamkeppnum mætti stuðla að verðmætasköpun með því að búa til nýjar vörur inn í þessar byggingar sem öðlast sjálfstætt líf en þannig verða margir sígildir munir til erlendis. Þetta skortir í okkar menningu og uppbyggingarferli við opinberar byggingar. Við eigum að vera stolt af því að vera með íslenska hönnun og framleiðslu í byggingum okkar. Við erum gjörn á að einblína á verð í stað þess að huga að verðmætasköpuninni sem fylgir því að velja íslenskt.“

Margir frambærilegir hönnuðir og framleiðendur

Jóhanna Klara segir aðspurð slík innkaup myndu hafa mikla þýðingu fyrir íslenska húsgagnageirann. Greinin hafi dregist saman en hér séu margir frambærilegir hönnuðir og framleiðendur sem geti vel staðið í slíkri framleiðslu. Um 350 manns starfi nú við húsgagnasmíði og smíði innréttinga á Íslandi. „Ríkið á að hvetja til vöruþróunar. Það væri svo skemmtilegt ef hægt væri að búa til vörur í hönnunarsamkeppni. Hvað með Landsbankaljósið og Alþingishægindastólinn? Slíkar vörur myndu öðlast sjálfstætt líf í byggingunum en hönnun er í mörgum löndum útflutningsvara.“ Hún segir Íslendinga vera á margan hátt á byrjunarreit hvað þetta varðar í alþjóðlegum samanburði. Innsetning íslenskra húsgagna í suðurstofu Bessastaða sé gott fordæmi. „Við eigum hönnunarsafn sem er fullt af íslenskum húsgögnum. Við ættum í það minnsta að reyna að endurlífga eitthvað af þeirri hönnun.“ 

ViðskiptaMogginn / mbl.is, 24. febrúar 2021.

Í Morgunblaðinu 25. febrúar segir í frétt að samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hafi fulltrúar bankans farið til London „til að kynna sér verkefnamiðaða vinnuaðstöðu, ekki meðal annars til að kynna sér húsgögn“. 

VidskiptaMoggi-24-02-2021