Verðhækkanir á byggingarefnum er áhyggjuefni
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í forsíðufrétt Morgunblaðsins það vera mikið áhyggjuefni að verð á byggingarefnum hafi snarhækkað upp á síðkastið í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Í fréttinni kemur fram að Sigurður nefnir sem dæmi verð á stáli sem hafi fjórfaldast á skömmum tíma og önnur aðföng, líkt og sement og kopar, hafi einnig hækkað mikið, og hafi þessar hækkanir haft mikil áhrif á byggingarkostnað. „Við erum að sjá það að verkkaupar eru farnir að setja inn fyrirvara í útboðum um heimild til endurskoðunar ef aðstæður breytast mikið, en þetta á ekki við núgildandi samninga.“
Byggingavísitalan endurspeglar ekki hækkanirnar
Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að núgildandi verksamningar séu flestir tengdir við byggingarvísitöluna sem að sögn Sigurðar endurspegli ekki þessar hækkanir sem verktakar séu að verða vitni að. „Þetta hefur valdið því að það er meiri kostnaður sem lendir á verktökum og verkkaupar þurfa þá aðeins að horfa til þessara óvenjulegu aðstæðna sem nú ríkja til þess að hægt sé að klára verk. Hættan er sú, ef ekki verður tekið á þessu, að þá verði meiri óvissa í uppbyggingunni sem er fram undan með tilheyrandi álagi.“
Verðhækkanir hafa áhrif á byggingarkostnað
Jafnframt segi Sigurður í fréttinni að óskandi væri að opinberir verkkaupar taki tillit til þessara hækkana við uppgjör samninga, það er að segja verk sem samið var um áður en þessi staða var ljós. Sigurður segir að margt spili inn í fasteignaverð hérlendis en vissulega gæti aukinn byggingarkostnaður ýtt undir hærra fasteignaverð. „Það er auðvitað markaðurinn sem stýrir verðinu og það eru margir kraftar þar að verki en þetta hefur áhrif á byggingarkostnað. Sums staðar er byggingarkostnaður vel undir markaðsverði og þá er ekki víst að þetta hafi mikil áhrif þar, en annars staðar, til dæmis út á landi, er verðið undir byggingarkostnaði. Þá verður munurinn mikill og það getur dregið úr uppbyggingu eða komið í veg fyrir hana og þá þarf ríkið að stíga inn.“
Tveir stórir aðfangamarkaðir lokaðir
Spurður út í horfur á hrávöru- og byggingarefnamarkaði segir Sigurður í fréttinni að hann búist ekki við lækkunum í bráð. Þegar Rússar hófu innrás sína í Úkraínu hafi tveir stórir aðfangamarkaðir lokast. „Stál og timbur til dæmis hefur komið frá Hvíta-Rússlandi og Rússlandi. Þeir markaðir lokast og þá þarf að finna nýja markaði. Það eru auðvitað fleiri en við í þessari stöðu, sem veldur þessu mikla ójafnvægi bæði í aðgengi og svo verðlagi.“
Morgunblaðið / mbl.is, 23. maí 2022.