Fréttasafn23. jún. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Verðhækkanir, tafir og skortur á lóðum og vinnuafli hefta vöxt

Í nýrri greiningu SI um niðurstöður könnunar meðal stjórnenda stórra íslenskra fyrirtækja í mannvirkjagerð og byggingariðnaði kemur fram að ýmsar takmarkanir í uppbyggingu á borð við verðhækkanir hrávöru, tafir í aðfangakeðjunni, lóðaskortur og skortur á vinnuafli gætu heft vöxt fyrirtækjanna litið til næstu tólf mánaða. 66% stjórnenda segja að framboð vinnuafls verði takmarkandi þáttur fyrir vöxt þeirra fyrirtækja á næstu 12 mánuðum. Einnig segja 72% að skortur á lóðum til nýbygginga hefti uppbyggingu íbúða. Ríflega 73% segja að tafir á afhendingu eða skortur á innfluttum aðföngum hafi haft neikvæð áhrif á framgang verkefna hjá fyrirtækjunum. Greinin hefur verið að taka við sér eftir tveggja ára niðursveiflu en niðurstöður könnunarinnar benda til þess að tímabil stöðnunar gæti verið fram undan ef ekki verða breytingar í þeim þáttum sem gætu takmarkað vöxt greinarinnar á næstunni.

Samantekt

  • Stjórnendur fyrirtækjanna eru spurðir að því hvort þeir telji að framboð vinnuafls verði takmarkandi þáttur fyrir vöxt þeirra fyrirtækja á næstu 12 mánuðum. Svara tæplega 66% því játandi og nær 33% neitandi. Vaxandi skortur á vinnuafli virðist því vera í uppsiglingu í greininni sem er umhugsunarverð staða í ljósi þess mikla fjölda sem er vísað frá iðnnámi en á síðasta ári voru þau 700 og útlit er fyrir að þau verði fleiri í ár.
  • Stjórnendur fyrirtækjanna eru spurðir að því hvort þeir telji að skortur á lóðum sem tilbúnar eru til nýbygginga takmarki uppbyggingu íbúða. Svara tæplega 72% því játandi en ríflega 17% neitandi. 11% segja veit ekki eða á ekki við. Svörin bera það með sér að lóðaskortur sé takmarkandi þáttur fyrir íbúðauppbyggingu um þessar mundir og þá í leiðinni að það sé vandinn við takmarkað framboð íbúða og það ófremdarástand sem nú ríkir á íbúðamarkaði.
  • Hækkun á verði innfluttra aðfanga hefur haft áhrif á framgang verkefna í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Ríflega 14% stjórnenda fyrirtækja segja að hækkun á verði innfluttra aðfanga frá innlendum birgjum hafi orðið til þess að þeirra fyrirtæki hafi hætt við verkefni á síðustu 2 árum. Þegar einungis er litið til svara stjórnenda þeirra fyrirtækja sem eru með yfir milljarð í veltu þá er hlutfallið hærra eða tæplega 24%. Stærri fyrirtækin eru í stærri útboðsverkefnum og sýna niðurstöðurnar að þar hafi þessar verðhækkanir meiri áhrif.
  • Spurt er hvort tafir á afhendingu eða skortur á innfluttum aðföngum hafi haft neikvæð áhrif á framgang verkefna hjá fyrirtækjunum. Ríflega 73% svara því játandi en 25% neitandi. Af svörunum að dæma eru áhrif skorts og tafa mikil á framgang verkefna stærri fyrirtækja í byggingariðnaði og mannvirkjagerð á síðustu 2 árum. Þessir þættir hafa því heft vöxt greinarinnar á erfiðum tíma í efnahagslífinu þar sem full þörf var á meiri uppbyggingu húsnæðis og opinberra innviða en raunin var.
  • Ljóst er af svörum við könnuninni að verðhækkanir á erlendum aðföngum frá innlendum birgjum hefur verið mismunandi en í langflestum tilfellum mjög miklar á síðustu tveimur árum. Tæplega 44% svarenda segja að verð á innfluttum aðföngum frá innlendum birgjum til þeirra fyrirtækja hafi hækkað um 15-29,9% á síðustu 2 árum, tæplega 22% segja að hækkunin hafi verið á bilinu 30-44,9%, ríflega 9% að hækkunin hafi verið á bilinu 45-59,9% og tæplega 8% að hún hafi verið 60% eða meiri.
  • Flutningskostnaður hefur hækkað umtalsvert á síðustu 2 árum. Þegar stjórnendur eru spurðir hversu mikið þeir telja að verð á flutningum erlendis frá hafi hækkað mikið til þeirra fyrirtækja á síðustu 2 árum segja flestir eða nær 30% 15-29,9%. Ríflega 17% segja 30-44,9% og ríflega 9% segja 60% eða meira.

Lodaskortur

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.