Fréttasafn



15. jan. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Verðmætin verða til í atvinnulífinu en ekki hjá hinu opinbera

Verðmætin verða til í atvinnulífinu, verðmætin til að standa undir þeim lífsgæðum sem við þekkjum og sem við viljum búa við. Hið opinbera er að tapa um milljarði á hverjum einasta degi meðan á þessu stendur og tekur á sig auknar skuldir til þess að reyna að milda höggið. Það hefur sannarlega tekist en að lokum kemur að skuldadögum. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Þorgeirs Ásvaldssonar í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um ástandið í efnahagslífinu vegna COVID og hvað væri framundan. „Með hliðsjón að því að verðmætin verða til í atvinnulífinu þá þarf að efla það eins mikið og hægt er til þess að hér verði til meiri verðmæti og verði til fleiri störf. Atvinnuleysið eins og það er í dag er óásættanlegt. Við gerum þetta með því að hlúa að því sem fyrir er, skapa þeim greinum sem best skilyrði sem hér eru en stóra tækifærið er líka að byggja upp nýjan iðnað sem er kominn, það er stoðin sem við köllum hugverkaiðnað.“

Virkja hugvitið til þess að hér verði vöxtur og eftirsótt störf

Sigurður segir þrjár meginstoðir útflutningsgreinanna vera sjávarútveg, orkusækinn iðnað og ferðaþjónustan. „Þessar þrjár greinar byggja á hagkvæmri nýtingu auðlinda, hvort sem það er hafið, fallvötnin eða náttúran sjálf sem er aðdráttarafl fyrir ferðamennina. Hugvitið er aftur á móti öðruvísi, það byggir á okkar stærstu auðlind sem er hugvitið sjálft og það viljum við virkja og nýta í hugverkaiðnaði til þess að hér verði vöxtur og hér verði til ný, spennandi og eftirsótt störf á næstu árum og áratugum.“

Þegar Sigurður er spurður hvort þetta sé skjótvirk leið eða taki tíma: „Það getur veri skjótvirk leið með réttum aðgerðum. Kosturinn er að við erum ekki að byrja frá grunni, jarðvegurinn er frjór og stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á síðustu 10 árum eða svo. Það hefur verið stórstígar framfarir 2020 til þess að efla nýsköpun. Það eru mörg fyrirtæki sem hafa orðið til og hafa mikla burði til þess að vaxa og taka stóra stökkið.“

Hann nefnir sem dæmi Marel, Össur og CCP sem allt séu þetta stöndug og öflug fyrirtæki. „En svo eru líka nýrri fyrirtæki eins og Controlant sem er að selja búnað sem er notaður til flutninga á bóluefni fyrir COVID út um allan heim.“ Einnig nefnir Sigurður Kerecis sem framleiðir sáraumbúðir úr úr fiskroði. „Eitthvað sem var hent en núna nýtist og veltir milljörðum á ári. Það eru mörg svona dæmi, Nox Medical í svefnrannsóknum og fleiri og fleiri.“ Sigurður segir að nýsköpun sé ekki ein af þeim leiðum sem við séum að velja um heldur sé nýsköpun eina leiðin. Hann segir nýsköpun vera í öllum greinum, í sjávarútvegi, ferðaþjónustunni og iðnaði, og í rótgrónum fyrirtækjum og í sprotafyrirtækjum. 

Leið skattlagningar og aukinna opinberra umsvifa eða leið vaxtar í atvinnulífinu

Sigurður segir það vera áhyggjuefni hvað hið opinbera hafi stækkað mikið á undanförnum árum og áratugum, „Það þarf að verða einhver breyting á. Verðmætin verða til í atvinnulífinu, verðmætin sem þarf til að standa undir velferðarkerfinu og undir þeim lífsgæðum sem við viljum búa við og þeim skuldum sem við erum að safna þessa dagana út af COVID sem við þurfum á einhverjum tímapunkti að greiða til baka. Þessi umræða er kraumandi held ég að mér sé óhætt að segja og verður áberandi á þessu ári. Nú eru Alþingiskosningar í haust og þar verður kosið um það hvort það eigi að fara leið skattlagningar, fara leið aukinnar opinberra umsvifa eða leið vaxtar. Það er mikið í húfi. Á næstu 12 mánuðum eða svo verða teknar ákvarðanir sem munu ráða miklu um það hvernig staðan verður hér á næstu 10, 20 eða jafnvel 30 árum. Þetta eru miklir umbrotatímar sem eru framundan og því mikilvægt að vandað sé til verka.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 14. janúar 2021.