Fréttasafn15. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Verðum að mæta nýjum þörfum fólks

Bygginga- og mannvirkjagerð er stór grein í íslensku efnahagslífi og ein af undirstöðum samfélagsins. Greinin sinnir nauðsynlegri uppbyggingu á heimilum landsmanna, atvinnuhúsnæði og innviðum en hlutdeild greinarinnar í landsframleiðslu er rúmlega 7% og 12.400 launþegar eru starfandi í greininni. Heildarumfang fjárfestinga á síðasta ári í byggingum og mannvirkjum var 536 milljarðar króna og er því vægið í verðmætasköpun hagkerfisins mikið eða um 18%. JÓHANNA KLARA STEFÁNSDÓTTIR, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og GYLFI GÍSLASON, framkvæmdastjóri Jáverk og formaður Mannvirkjaráðs SI, ræddu saman.

Jóhanna: Bygginga- og mannvirkjagerð er mannaflafrekur iðnaður og margar hendur þarf til að vinna eitt verk en þó hafa störfin breyst gífurlega hratt á undanförum árum með hröðum tækniframförum. Hverjar eru helstu breytingarnar? 

Gylfi: Störfin innan greinarinnar hafa breyst í takt við þessa jákvæðu þróun sem tækniframförunum fylgir en þær eru margar áskoranirnar sem þarf að mæta. Að mínu mati eru það helst tvær mjög stórar áskoranir sem bygginga- og mannvirkjagreinin stendur frammi fyrir. Í fyrsta lagi eru mjög breyttar kröfur gerðar til bygginga í sjálfu sér. Þarfir fólks eru að breytast þegar kemur að því hvar og hvernig við viljum búa og vinna. Það er ljóst að byggingaog mannvirkjaiðnaðurinn verður að mæta þessum nýju þörfum. Í öðru lagi hefur stóraukin umræða um umhverfismálin ekki farið fram hjá okkur og þar verða að mínu mati okkar stærstu áskoranir. En áskorunum fylgja líka alltaf einhver tækifæri og við ætlum að nýta þau til að gera enn betur. 

Jóhanna: Þegar kemur að þessum breyttu þörfum til dæmis hjá ungu fólki sem vill frekar smærri og hagkvæmari íbúðir þá er spurning hvort regluverkið og skipulagið hjá hinu opinbera sé of hamlandi og hvort það jafnvel dragi úr nýsköpun og getu fyrirtækja til að mæta þessum nýju þörfum. Hvert er þitt mat á því? 

Gylfi: Það er rétt að hið opinbera á það til að vera svifaseint í afgreiðslu en við sjáum þó fram á betri tíð hvað það varðar. Það hafa verið lagðar fram fjölmargar tillögur til úrbóta til að hraða afgreiðslu mála hjá bæði ríki og sveitarfélögum og bindum við vonir við að það muni gera okkur kleift að mæta enn betur þessum breyttu þörfum sem þú nefnir. Það skiptir auðvitað miklu máli að það séu ekki of margar hindranir í veginum þegar byggja á upp húsnæði og mannvirki í takt við tíðarandann hverju sinni. Því hver bygging og hvert mannvirki getur tekið mörg ár í framkvæmd, allt frá því fyrstu hugmyndir eru settar niður á blað og þar til mannvirkið er risið og komið í notkun. 

Jóhanna: Þó svo að nýsköpun sé ekki endilega orð sem við tengjum beint við byggingaog mannvirkjaiðnaðinn þá vitum við að tækifærin og þörfin á auknum rannsóknum og þróun leynast víða, er það ekki rétt? 

Gylfi: Jú það er rétt. Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar nýsköpun er annars vegar er þörfin á grænum lausnum fyrir atvinnugreinina. Við vitum að þessi þróun er mjög hröð núna. Þeir sem starfa í þessum geira hafa áhuga á því að vinna að bættum umhverfisáhrifum greinarinnar. Það virðist sem Ísland standi aftar en mörg önnur lönd þegar kemur að rannsóknum og upplýsingum um stöðu í umhverfismálum, t.d. varðandi mælingar á kolefnisfótspori, byggingarúrgangi og notkun byggingarefna. Úr þessu þyrfti að bæta. 

Jóhanna: Nú er eitt af markmiðum Mannvirkjaráðs SI að tala fyrir byltingu í rafrænni stjórnsýslu og tækninotkun innan greinar-innar? 

Gylfi: Það er gaman að segja frá því að það eru margir mjög áhugaverðir hlutir að gerast á mörgum sviðum greinarinnar sem hægt er að flokka undir nýsköpun. Ég get til dæmis nefnt uppbyggingu nýrra þrívíddarforrita á borð við BIM. Við sjáum líka að stór verktakafyrirtæki erlendis eru að breyta viðskiptalíkönum sínum þannig að nú er hægt að fylgja hverri byggingu út líftíma hennar. Þá eru allar hugmyndir sem snúa að auknum gæðum innanhúss og fjölmargar snallvæðingar í byggingum mjög áhugaverðar. Það er því mikilvægt að við sem störfum í bygginga- og mannvirkjageiranum hér á landi fylgjumst vel með þessari þróun og tökum upp nýjungar sem henta hér á landi. 

LJÓSMYND Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_