Fréttasafn5. jan. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Verðum af útflutningstekjum vegna raforkuskerðinga

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Viðskiptablaðinu að mat samtakanna á þeim útflutningstekjum sem þjóðarbúið verði af miði einungis við þær skerðingar sem þegar hafi verið tilkynnt um á fyrstu mánuðum ársins. Áhrif á útflutningstekjur í ár yrðu enn meiri ef grípa þurfi til skerðinga næsta vetur, eins og útlit sé fyrir. Mat SI nær aðeins utan um bein áhrif á álver og gagnaver en framleiðsla þeirra dragist eðli málsins samkvæmt saman við raforkuskerðingar. SI áætla að skerðingar til álvera á suðvesturhorninu, þ.e. til álvers Norðuráls á Grundartanga og Rio Tinto í Straumsvík, hafi í för með sér að gjaldeyristekjur þeirra verði um 5 til 7 milljörðum króna minni en ella. Þá áætla samtökin að skerðingar til gagnavera muni leiða til þess að gjaldeyristekjur þeirra dragist saman um 3 til 5 milljarða króna vegna raforkuskerðinga og telur Ingólfur líklegra að sú tala verði nær efri mörkum bilsins en þeim neðri. Það mat byggi á að heildartekjur gagnavera landsins séu áætlaðar um 25 milljarðar króna í ár. „Við erum útflutningsdrifið hagkerfi, við þurfum á útflutningi að halda til að fjármagna innflutning sem varðar neyslu landsmanna og fjárfestingarvörur. Það er ljóst að þegar við höggvum skarð í útflutning þá skerðir það verðmætasköpun hagkerfisins sem kemur niður á fyrirtækjunum og heimilunum í landinu með einum eða öðrum hætti,“ segir Ingólfur spurður um áhrif á þjóðarbúið. Áhrifin komi fram, m.a. í gengi krónunnar, verðbólgu og kaupmætti launa.

Hér er hægt að nálgast nýjasta tölublað Viðskiptablaðsins.

Viðskiptablaðið, 5. janúar 2024. 

Viðskiptablaðið, 7. janúar 2024.