Fréttasafn



19. apr. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Verk og vit sett með pomp og prakt

Stórsýningin Verk og vit var sett í sjötta sinn með pomp og prakt í Laugardalshöll síðdegis í gær. Yfir 100 sýnendur taka þátt í sýningunni. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins, fluttu ávörp. Að ávörpum loknum var sýningin opnuð formlega.

Á Verk og vit kynna fyrirtæki og stofnanir í byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum vörur sínar og þjónustu. Sýningin er opin fagaðilum alla sýningardagana, en almenningi gefst kostur á að heimsækja hana um helgina.

„Það er frábært að finna kraftinn hér á þessari sýningu sem hefur skipað sér mikilvægan sess fagaðila á milli og ekki síður samtal við almenning. Mannvirkja- og skipulagsgerðin felur í sér starfsemi sem er umfangsmikil og krefst notkunar margs konar tækni og tækja,“ sagði Svandís m.a. í ávarpi sínu. Hún fjallaði einnig um mikilvægi fjárfestinga í vegakerfinu og samgöngumálum almennt og að mikilvægt sé að horfa til umhverfismála í geiranum. „Það eru mikil sóknarfæri í nýsköpun og hönnun sem getur í grunninn verið vistvæn. Ef okkur er alvara með að sporna við umhverfisáhrifum þá þurfum að taka umhverfissjónarmið inn í alla þætti hönnunarferlis og mannvirkjagerðar,“ sagði Svandís.

„Það er aðdáunarvert að sjá hina miklu grósku sem er og hefur verið í þessum geira. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á eflingu verk- og starfsnáms á okkar starfstíma,“ sagði Ásmundur m.a. í ávarpi sínu og bætti við að hlutfall iðnnema sé miklu lægra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum sem væri alvarlegt mál og við því þyrfti að sporna. Hann sagði ríkisstjórnina hafa sett sér skýr markmið til næstu 10 ára um að byggja upp skólahúsnæði fyrir verk- og starfsmenntaskóla. „Við þurfum að byggja 12 þúsund fermetra húsnæði fyrir slíkan skóla á næstu árum samhliða því að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir Tækniskólann ef við ætlum okkur að vinna upp þá biðlista sem hafa myndast í verk- og starfsnámi,“ sagði Ásmundur ennfremur.

„Iðnaðurinn er sannarlega öflugur. Í heild sinni velti iðnaðurinn um 600 milljörðum króna í fyrra. Hann skapar um 18.000 störf og lagði um 305 milljarða króna af mörkum til landsframleiðslunnar á síðasta ári,“ sagði Sigurður m.a. í ávarpi sínu. Hann sagði að þótt þetta væru háar tölur þá þurfi að auka fjárfestingu í vegakerfi og íbúðarhúsnæði. Ennfremur sagði Sigurður að skortur á iðnmenntuðu fólki kæmi í veg fyrir vöxt greinarinnar og því leggi Samtök iðnaðarins ríka áherslu á að vekja áhuga fólks á fjölbreyttum störfum í iðnaðinum og iðnnámi. „Það er virkilega leitt að á bilinu 600 til 1.000 nemendum er vísað frá iðnnámi árlega vegna skorts á aðstöðu og fjármagni,“ sagði Sigurður.

Samhliða sýningunni verður einnig haldin ráðstefna og aðrir viðburðir. Meðal sýnenda eru byggingaverktakar, verkfræðistofur, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki, framleiðendur, menntastofnanir og ráðgjafafyrirtæki og er mikill hugur í þeim að gera sýninguna sem glæsilegasta.

Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla, sem er framkvæmdaraðili sýningarinnar, sagði mikinn metnað ríkja meðal sýnenda og það geri sýninguna jafn glæsilega og raun ber vitni. Samstarfsaðilar sýningarinnar eru mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Byko og Landsbankinn.

Myndir/BIG.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri, Svandís Svavarsdótti,  innviðaráðherra, og Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins. 

SI_verk_og_vit_2024_opnun-4Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

SI_verk_og_vit_2024_opnun-10Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

SI_verk_og_vit_2024_opnun-12Svandís Svavarsdótti, innviðaráðherra.

SI_verk_og_vit_2024_opnun-1Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Verk og vit.

SI_verk_og_vit_2024_opnun-3

SI_verk_og_vit_2024_opnun-2

SI_verk_og_vit_2024_opnun-7

SI_verk_og_vit_2024_opnun-13

SI_verk_og_vit_2024_opnun-9

SI_verk_og_vit_2024_opnun-14



mbl.is, 19. apríl 2024.