Fréttasafn5. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Veruleg vonbrigði með frumvarp um skipulagslög

Samtök iðnaðarins hafa sent inn í Samráðsgátt umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 þar sem kemur meðal annars fram að það sé mat samtakanna að alltof skammt sé gengið í því að auka skilvirkni skipulagsmála með frumvarpinu og að því leyti lýsi samtökin yfir verulegum vonbrigðum með frumvarpið. 

Í umsögninni eru settar fram athugasemdir í fjórum liðum. Gerðar eru athugasemdir við stafræna gagna- og upplýsingagátt sem Samtök iðnaðarins segja að liggi mun meiri tækifæri í en lagasetningin taki til. Samtökin telja að færa ætti fleiri stjórnsýsluferla og opinbera þjónustu í rafrænar gáttir og tengja þær saman til að bæta aðgengi að gögnum og rekjanleika sem spari mikinn tíma og kostnað. Einnig gera samtökin athugasemdir við gjaldtöku fyrir eftirlit með framkvæmdum við flutningskerfi raforku og leggjast samtökin gegn aukinni gjaldheimtu við útgáfu framkvæmdaleyfis og telja það ruglingslegt að hafa gjaldheimtuákvæðin á víð og dreif. Jafnframt gera samtökin athugasemdir við skipulag vegna flutningskerfis raforku og leggja til að gengið verði lengra og ekki eingöngu horft til skipulags hvað varðar flutningskerfi raforku heldur einnig aðra innviðauppbyggingu í tengslum við vinnslu, dreifingu og flutning á raforku. Þá lýsa samtökin yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið gengið lengra í að stytta athugasemdafrest með það fyrir augum að flýta málsmeðferð og ítreka þá afstöðu sína að kynningar- og kæruferli skipulagsmála sé heilt yfir alltof langt. 

Samtökin telja að ganga þurfi miklu lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir til að auka skilvirkni í skipulagsmálum, finna þurfi leiðir til að leyfisveitingar gangi betur fyrir sig, taki skemmri tíma og tryggi samræmi í vinnubrögðum milli aðila sem koma að ferlinu. 

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.