Fréttasafn



13. mar. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Verulega aukinn hagvöxtur ef vaxtaráform ganga eftir

Samtök iðnaðarins hafa gefið út nýja greiningu um umfang og vaxtartækifæri í iðnaði hér á landi litið til næstu ára þar sem áform eru um verulega aukningu í útflutningi iðnaðar og þörf fyrir innviðaframkvæmdir sem gæti leitt til meiri hagvaxtar á næstu árum en nú er reiknað með í hagvaxtarspám. Samkvæmt könnun SI meðal nokkurra fyrirtækja í hugverkaiðnaði munu útflutningstekjur greinarinnar þrefaldast fram til ársins 2027 og verða þá 700 milljarðar króna. Þörf er fyrir um 3.500 ma.kr. innviðaframkvæmdir í orkumannvirkjum, íbúðum og samgöngum. Ef af þessum áformum verður munum við sjá meiri hagvöxt á næstu árum en nú er reiknað með í hagvaxtarspám. Við gætum jafnvel séð verulega aukinn hagvöxt ef vel tekst til. Til þess að tækifærin í iðnaðinum séu nýtt til aukinnar vermætasköpunar þarf umbætur í menntamálum, hvata til fjárfestinga í nýsköpun, innviðauppbyggingu og einfalt og skilvirkt regluverk og starfsumhverfi fyrirtækja.

Hér er hægt að nálgast greininguna. 

  • Fjölmörg tækifæri til vaxtar hagkerfisins eru í íslenskum iðnaði. Áform eru innan greinarinnar um verulega aukningu í útflutningi og brýnt er að ráðast í þjóðhagslega arðvænlegar fjárfestingar í innviðum. Ef af þessum áformum verður munum við sjá meiri hagvöxt á næstu árum en nú er reiknað með í hagvaxtarspám. Við gætum jafnvel séð verulega aukinn hagvöxt ef vel tekst til.
  • Í hagkerfinu starfar einn af hverjum fjórum í iðnaði. Heildarfjöldi launþega í greininni var 47 þúsund í lok síðastliðins árs eða 23% af heildarfjölda launþega í hagkerfinu öllu. Iðnaður hefur staðið undir 30% af allri fjölgun launþega í hagkerfinu á síðustu tíu árum, tímabili sem inniheldur tvær uppsveiflur í íslensku efnahagslífi.
  • Veltan í iðnaði nam 1.963 mö.kr. á síðastliðnu ári sem nemur 31% af heildarveltu hagkerfisins. Veltan í iðnaði hefur tvöfaldast síðan árið 2014. Skýrist aukningin af auknum umsvifum í greininni og verðbreytingum.
  • Iðnaður stendur undir 23% verðmætasköpunar hagkerfisins og mun meira ef óbein áhrif greinarinnar eru tekin með. Hlutdeild greinarinnar í hagvexti síðustu tíu ára er 30%. Litið til næstu ára er viðbúið að hlutdeild greinarinnar í hagvexti verði meiri, jafnvel umtalsvert meiri.
  • Iðnaður er stærsta greinin í útflutningi hagkerfisins. Útflutningstekjur greinarinnar í fyrra voru 761 ma.kr. eða 44% útflutningstekna hagkerfisins.
  • Fjölbreytt flóra 6.200 iðnfyrirtækja starfa um land allt. Fyrirtækin eru stór og smá í öllum greinum iðnaðar.
  • Hugverkaiðnaður hefur verið hratt vaxandi grein í útflutningi og skilaði greinin í fyrra 239 mö.kr. í útflutningstekjur sem er nær fimmföldun frá árinu 2008. Vægi greinarinnar í útflutningi hagkerfisins var 14% í fyrra.
  • Samkvæmt könnun SI meðal nokkurra fyrirtækja í hugverkaiðnaði munu útflutningstekjur greinarinnar þrefaldast fram til ársins 2027 og verða þá 700 ma.kr. Útflutningstekjur hagkerfisins í heild munu aukast um nær fjórðung við þetta. Áhrif þessa á hagkerfið verða veruleg en þetta mun auka verðmætasköpun, fjölga vel launuðum störfum og breyta samsetningu útflutningstekna yfir í að verða meira hugvitsdrifin.
  • Það er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða hér á landi hvort sem er í uppbyggingu orkukerfis, íbúða eða samgangna. Orkuskiptin sem eiga að eiga sér stað fyrir árið 2040 útheimta um 800 ma.kr. fjárfestingu. Ríki og sveitarfélög hafa gert með sér rammasamkomulag um byggingu 35 þúsund nýrra íbúða á næstu tíu árum. Um er að ræða 2 þúsund milljarða fjárfestingu sem er 40% aukning í íbúðafjárfestingu m.v. síðastliðin 10 ár. Þessu til viðbótar er mikil uppsöfnuð fjárfestingar- og viðhaldsþörf í samgöngukerfinu en uppbygging og viðhald kerfisins útheimtir samanlagt um 730 ma.kr. fjárfestingu. Efnahagslegur ávinningur þessara innviðaframkvæmda verður mikill.
  • Til þess að tækifærin í iðnaðinum séu nýtt til aukinnar vermætasköpunar þarf umbætur í menntamálum, hvata til fjárfestinga í nýsköpun, innviðauppbyggingu og einfalt og skilvirkt regluverk og starfsumhverfi fyrirtækja. Tryggja þarf aukið framboð af grænni orku til fullra orkuskipta og uppbyggingar í iðnaði um land allt, fjölga þarf iðn-, tækni- og verkmenntuðu starfsfólki, greiða götu framkvæmda og setja kraft í innviðafjárfestingu, ekki síst í samgöngum, húsnæði og orkuskiptum.

Atvinnugreinar