Fréttasafn



31. ágú. 2017 Almennar fréttir

Við ætlum að vinna með stjórnvöldum að umbótum

 

„Samtök iðnaðarins eru hreyfiafl í íslensku samfélagi, við eigum að taka frumkvæði í mikilvægum málum sem varða iðnaðinn. Við ætlum ekki að stunda hefðbundna hagsmunagæslu, heldur vinna að lausnum, koma inn í umræðuna á uppbyggilegan hátt og vinna með stjórnvöldum að umbótum í samfélaginu, sem auðvitað gagnast okkur öllum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali sem Höskuldur Marselíusarson skrifar í Viðskiptablaðinu í dag. Samtök iðnaðarins munu leggja áherslu á fjóra meginþætti. „Mest áhersla verður lögð á menntamál, nýsköpun, styrkingu innviða og loks starfsumhverfi íslenskra iðnfyrirtækja, þættir eins og regluverk, skatta og hagstjórn.“ Sigurður segir að íslenskur iðnaður sé ein af lykilforsendum velmegunar í landinu. Útflutningsverðmæti iðnaðarins nemi á fimmta hundrað milljarða króna, tvær af fjórum meginstoðum útflutnings eigi rætur sínar í iðnaði og iðnaðurinn skapi fimmta hvert starf í landinu eða tæplega 40 þúsund störf.

Sigurður segir í viðtalinu að fyrir félagsmenn samtakanna sé stöðugt umhverfi lykilforsenda áætlunargerðar og vaxtar inn í framtíðina „Það er stærsta áskorun stjórnmálanna nú um stundir, að finna leiðir til þess að auka hér stöðugleikann.“ Hann segir tvennt skipta mestu máli í því samhengi. „Annars vegar er það peningastefnan, en hana er verið að endurskoða sem stendur, og við bíðum spennt eftir því hvað kemur út úr þeirri vinnu. Í mínum huga er kristaltært að rót vandans er mikill raunvaxtamunur við útlönd, sem horfa verður á til viðbótar við verð­ bólgumarkmið Seðlabankans. Sem þýð­ir auðvitað að vextirnir verða að lækka, enda leiða háir vextir, eða raunvaxtamunurinn, til innflæðis fjármagns sem á endanum bjagar stöðuna, og leitar svo hratt út þegar ójafnvægi myndast. Ríkisfjármálin eru svo hitt en Seðlabankinn hefur sjálfur sagt að með góð­um samhljómi milli ríkisins og bankans, væru hér forsendur til þess að lækka vexti. Með öðrum orðum ef ríkissjóður sýnir aðhald á hagvaxtarskeiði, og bætir í þegar hagkerfið er að dragast saman, þá gætu vextir verið lægri en ella.“ Þá nefnir Sigurður að með hliðsjón af þeim hagvexti sem spáð er hér á landi á næstu árum hefðu Samtök iðnaðarins viljað sjá meira aðhald í ríkisfjármála­áætlun stjórnvalda. „Á árunum 2005 til 2007 var um 5 til 7% afgangur af rekstri ríkissjóðs. Skuldir ríkissjóðs voru minni og vaxtagreiðslurnar þar af leiðandi minni baggi,“ segir Sigurður en nú sé gert ráð fyrir um 1,5% afgangi af ríkissjóði. Þegar blaðamaður spyr hann hvort afgangur þessara ára fyrir hrunið hafi verið nægilegur ef horft er í baksýnispegilinn svarar hann: „Nei, sennilega ekki.“ 

 

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu.

 

Viðskiptablaðið, 31. ágúst 2017.