Fréttasafn



12. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Við stöndum á tímamótum

Framundan er tímabil lítils hagvaxtar verði ekkert að gert. Á næstu áratugum þarf að skapa tugþúsundir starfa og aukin verðmæti til að standa undir þeim lífsgæðum sem landsmenn vilja búa við. Auðlindir landsins munu áfram verða uppspretta verðmætasköpunar, eins og verið hefur um aldir, en vöxturinn þarf að koma með því að virkja hugmyndaauðgi landsmanna sem eru engin takmörk sett. Þess vegna er nýsköpun ekki ein af leiðunum fram á við heldur eina leiðin. Nýsköpun skapar störf, verðmæti og leiðir til þess að nýjar lausnir líta dagsins ljós sem bæta samfélagið og líf okkar allra. Auk þessa byggir nýsköpun undir aukinn útflutning á sviði hugvits og þekkingar, sem er hagkerfinu nauðsynlegt. Þrennt þarf til að þessi sýn verði að veruleika. Frumkvöðla og fyrirtæki sem vinna að nýsköpun, stjórnvöld sem bæta almenn skilyrði og fjármálakerfi sem styður við vöxtinn með því að veita súrefni inn í nýsköpun.

Á hverjum degi kvikna margar hugmyndir. Nýsköpun er ferli þar sem sumar þessara hugmynda verða að verðmætum. Það krefst úthalds og áhuga á viðfangsefninu. Eldmóður, fagmennska og samvinna áræðinna einstaklinga skilar þannig framförum. Þetta gerist ekki að sjálfu sér. Ytri skilyrði þurfa að styðja við það ferli sem nýsköpun er og þar koma stjórnvöld við sögu. Hér á landi hafa orðið stórstígar framfarir á ytri umgjörð nýsköpunar undanfarinn áratug eða svo. Halda þarf áfram á þeirri braut enda er hugvitið án landamæra og mikil samkeppni ríkir milli landa um það hvar það er virkjað í þágu verðmætasköpunar og nýrra starfa. Þessir stórauknu hvatar til nýsköpunar geta skilað því að hér verði til þrjú til fimm fyrirtæki á borð við Marel, Össur og CCP á hverjum áratug í stað eins eða einskis. Þannig er hugvitið virkjað á markvissan hátt til að skapa enn frekari verðmæti og störf sem leggur grunn að auknum lífsgæðum landsmanna og meiri stöðugleika í efnahagslífinu til langrar framtíðar. 

 

Lífsgæði okkar grundvallast á sköpun verðmæta sem verða til í atvinnulífinu. Nýsköpun á sér stað í öllum greinum en að grunni til er nýsköpun iðnaður sem er hagnýttur í ólíkum greinum atvinnulífsins.

 

Virkjum hugvitið með nýsköpun

Lífsgæði okkar grundvallast á sköpun verðmæta sem verða til í atvinnulífinu. Nýsköpun á sér stað í öllum greinum en að grunni til er nýsköpun iðnaður sem er hagnýttur í ólíkum greinum atvinnulífsins. Um leið og hlúa þarf að því sem fyrir er og gæta að því að rótgróinn iðnaður geti vaxið og dafnað, þarf að skapa skilyrði fyrir vöxt nýrra greina. Nýsköpun skiptir máli fyrir fyrirtækin, fyrir efnahagslífið og fyrir samfélagið. Með nýsköpun skapa fyrirtæki sér forskot í samkeppni á markaði og þess vegna þarf sífellt að huga að þróun. Aukin verðmæti og spennandi störf verða til fyrir tilstuðlan nýsköpunar sem hefur þar með jákvæð áhrif á efnahagslífið. Nýsköpun leiðir til lausna á samfélagslega mikilvægum viðfangsefnum, til dæmis í heilbrigðismálum og loftslagsmálum og bætir þannig samfélagið og lífsgæði fólks. Þess vegna þarf nýsköpun í öllum greinum og á öllum sviðum samfélagsins. 

Bankar styðji við nýsköpun 

Bankar og þolinmóðir fjárfestar gegna veigamiklu hlutverki við vöxt fyrirtækja. Bankar studdu vel við vöxt fyrirtækja á borð við Marel og Össur og eiga sinn þátt í því að þau og fleiri nýsköpunarfyrirtæki hafa náð langt. Bankarnir voru hluthafar, lánveitendur og veittu ráðgjöf við ytri vöxt fyrirtækjanna á sínum tíma. Þannig tóku þessi fyrirtæki yfir önnur og jafnvel stærri erlend fyrirtæki og urðu með tímanum að þeim alþjóðlegu stórfyrirtækjum á sínu sviði sem raun ber vitni. Síðastliðinn áratug hefur þróunin verið önnur. Frambærileg fyrirtæki hafa verið keypt af erlendum fjárfestum og starfsemin gjarnan flust út. Á næsta áratug sjá bankarnir vonandi tækifæri í því að knýja vöxt fyrirtækja þannig að úr nýsköpun verði til nokkur öflug nýsköpunarfyrirtæki á áratug hér á landi.

 

Þróunin er hröð og önnur ríki vinna stöðugt að umbótum. Þess vegna þurfum við sífellt að gera betur svo hugvitið fái blómstrað hér á landi og úr verði öflug fyrirtæki.

 

Umbætur í formi atvinnustefnu 

Nýsköpun er ein af fjórum meginstoðum samkeppnishæfni sem er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Þeim mun meiri sem samkeppnishæfnin er, þeim mun meiri verðmæti verða til og þar af leiðandi verður meira til skiptanna. Fjórar grunnstoðir framleiðni og samkeppnishæfni eru menntun eða mannauður, efnislegir innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Með umbótum í þessum fjórum málaflokkum batna almenn skilyrði til rekstrar og framleiðni eykst. Ryðjum óþörfum hindrunum úr vegi og temjum okkur að hugsa hvort ákvarðanir séu til þess fallnar að einfalda hluti eða flækja að óþörfu. Þannig batnar starfsumhverfið. Fjárfestum í vexti framtíðar þannig að efnislegir innviðir landsins séu öruggir og styðji við verðmætasköpun í ólíkum greinum. Mannauður landsins þarf að búa yfir þeirri hæfni sem atvinnulífið þarfnast og þarf þar aukna áherslu á iðnnám annars vegar og nám í raungreinum og tæknigreinum (STEM, sem er skammstöfun á ensku og stendur fyrir Science, Technology, Engineering, Mathematics) hins vegar. Með bættri umgjörð nýsköpunar er stuðlað að auknum framförum og forskoti í alþjóðlegri samkeppni.

SI2020_806A7349

Stjórnvöld vísa veginn með umgjörð nýsköpunar 

Þróunin er hröð og önnur ríki vinna stöðugt að umbótum. Þess vegna þurfum við sífellt að gera betur svo hugvitið fái blómstrað hér á landi og úr verði öflug fyrirtæki. Samtök iðnaðarins hafa sannarlega beitt sér í þágu nýsköpunar á undanförnum árum og fagna því hversu stór skref hafa verið stigin í rétta átt. Stjórnvöld eiga mikið hrós skilið fyrir skilning á mikilvægi nýsköpunar og að hafa gjörbreytt umhverfi nýsköpunar til hins betra. Nýsköpunarstefna stjórnvalda sem kynnt var haustið 2019 var stórt skref og sú yfirlýsing að Ísland sé nýsköpunarland er stærri en halda mætti í fyrstu. Sú samstaða sem ríkti við gerð stefnunnar verður til þess að stefnan mun standa þó mannabreytingar verði í pólitíkinni. Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hafa sannarlega skilað góðum árangri og eru skýr hvati til nýsköpunar. Þessu kerfi var komið á fyrir um áratug síðan og umfang þess hefur vaxið í tímans rás. Það hefur gert mörgum fyrirtækjum í ólíkum greinum kleift að ráða fólk til að vinna að nýsköpun og þannig hefur fræjum verið sáð. Framundan gæti hæglega verið áratugur uppskeru – áratugur nýsköpunar þar sem fyrirtæki vaxa hratt og verðmætin margfaldast. Það er staðreynd að um tveir þriðju af fjármagni til rannsókna og þróunar kemur frá einkaaðilum. Kosturinn við endurgreiðslurnar, sem er sennilega ástæða þess að mörg ríki hafa innleitt slíka hvata, er að markaðurinn velur þau verkefni sem fjárfest er í. Þar er horft til eftirspurnar og þess hversu arðbær verkefnin eru talin. Þannig leita fjármunir í réttan farveg. Með því að efla þessa hvata eins og stjórnvöld hafa gert með myndarlegum hætti eru send skýr skilaboð um að Ísland eigi raunverulega að verða nýsköpunarland. Ýmislegt fleira snertir umgjörð nýsköpunar eins og aðgengi að fjármagni, að laða erlenda sérfræðinga til landsins, skapa skilvirkt stuðningsumhverfi og að efla markaðsstarf. Halda þarf áfram á braut umbóta til að ná settu marki. 

Leggjumst öll á eitt 

Við stöndum á tímamótum. Látum þriðja áratug þessarar aldar verða áratug nýsköpunar, áratug þar sem grunnur er lagður að nýrri sókn velmegunar og framfara. Með því að taka höndum saman, frumkvöðlar, fyrirtækin, stjórnvöld og fjármálakerfið, verður þessi sýn að veruleika. Það gerist ekki í risastökki heldur í mörgum litlum skrefum. Þannig verða til þúsundir nýrra starfa, útflutningur eykst og meiri verðmæti verða til. Samhliða því aukast lífsgæði landsmanna og Ísland verður í fremstu röð. Til mikils er að vinna. 

SIGURÐUR HANNESSON 

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

 

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_