Fréttasafn7. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Viðhorf félagsmanna SI til húsnæðisuppbyggingar

Í greiningu SI um niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var meðal félagsmanna mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins kemur fram að 92% þeirra eru sammála því að þörf sé á einni rafrænni gátt fyrir samskipti bygginga- og mannvirkjagerðar við hina ýmsu opinberu aðila og 78% eru sammála því að endurskoða þurfi kæruheimildir í skipulagsmálum þar sem heimildir séu of víðtækar. Þá kemur fram í niðurstöðunum að 80% telja að skortur á lóðaframboði komi í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og 79% telja að hagkvæmt húsnæði verði ekki byggt á þéttingarreitum.

Mynd-5-Skortur-a-lodum

Mynd-6-Hagkv.-husnaedi

Í könnuninni er einnig vikið að fjármögnunarumhverfinu og eru 58% sammála því að aðgengi að fjármögnun sé takmarkað og hamli fjárfestingum og 70% sammála því að hátt vaxtastig hamli framkvæmdum. Þegar spurt er um hvort lækkun stýrivaxta sé að skila sér í vöxtum lána sem veitt eru til framkvæmda þá eru 79% sammála því að svo sé ekki og 63% eru sammála því að gerðar séu kröfur af hálfu lánveitenda um of hátt eiginfjárframlag lántakenda í upphafi framkvæmda.

Mynd-7-Adgengi-ad-fjarm

Mynd-8-Laekkun-styrivaxta

Þá sýna niðurtöðurnar að 94% eru sammála því að stytta þurfi afgreiðsluferli skipulags- og byggingarmála og 90% eru sammála því að samræma þurfi afgreiðslu sveitarfélaga í skipulags- og byggingarmálum. 63% félagsmanna SI eru sammála þeim fullyrðingum að búa þurfi til hvata til nýsköpunar og til grænna lausna í húsnæðisuppbyggingu. Um helmingur félagsmanna eða 52% eru sammála því að skortur á menntuðu fagfólki hamli framþróun í þeirra starfsemi.

Niðurstöður könnunarinnar eru notaðar sem stuðningur við stefnumótun samtakanna í húsnæðisuppbyggingu. Niðurstöðurnar byggja á svörum 152 atvinnurekenda og svarhlutfall könnunarinnar er 21%. 

Hér er hægt að nálgast greiningu SI á könnuninni.