Viðurkenndir rekstraraðilar í flutningi milli landa
Embætti Tollstjóra hefur hafið undirbúning að innleiðingu á íslensku AEO - kerfi. AEO stendur fyrir „Authorised Economic Operator“ sem nefnt hefur verið „viðurkenndir rekstraraðilar“ á íslensku. Elvar Örn Arason, stjórnsýslufræðingur og Konráð Ragnar Konráðsson, verkefnastjóri AEO hjá Tollstjóra fóru yfir málið með fyrirtækjum sem stunda út- og innflutningi á fundi í Húsi atvinnulífsins.
Meginmarkmið með AEO eru að liðka fyrir viðskiptum og tryggja öryggi alþjóðlegu vörukeðjunnar. AEO er viðurkennt vottun sem tollayfirvöld veita fyrirtækjum sem gegna hlutverki í alþjóðlegu aðfangakeðjunni. Útbreiðsla þess hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og hefur verið innleitt í um 70 ríkjum.
Fyrirtækjum er frjálst að sækja um vottunina og gera þau það á viðskiptalegum forsendum. Kostir AEO - vottunar felast meðal annars í hraðari tollafgreiðslu, auknum fyrirsjáanleika og minni töfum við eftirlit. Vottuð fyrirtæki fá tilkynningu um skoðun farms og eiga möguleika á vali um skoðunarstað. Skoðunum fækkar og ef um tafir er að ræða þá fær farmur AEO vottaðra fyrirtækja forgang hjá tollayfirvöldum. Ávinningurinn felst einnig í vottuninni sjálfri þar sem AEO - vottun er talin vera gæðamerki í alþjóðlegum vöruflutningum. Til að hljóta vottun þurfa fyrirtæki að standast skoðun um reglufylgni, fjárhagslega stöðu, rekjanleika í kerfum fyrirtækis og um öryggis- og verndarstaðla. Fyrirtæki sem hlotið hafa AEO - vottun eru álitin traust og eftirsótt er að eiga við þau viðskipti. Þetta skiptir æ meira máli eftir því sem útbreiðsla AEO eykst.