Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun til Krónunnar
Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í Grósku í gær að viðstöddu fjölmenni. Afhentar voru viðurkenningar fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og fyrir þrjá viðurkenningarflokka, Staður, Verk og Vara. Þá afhenti Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heiðursverðlaun til Gísla B. Björnssonar. Að verðlaununum stendur Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Grósku og Vísindagarða Háskóla Íslands.
Myndir/Aldís Pálsdóttir
Margrét Kristín Sigurðardóttir, almannatengsla- og samskiptastjóri SI, afhenti viðurkenninguna fyrir bestu fjárfestingu í hönnun en að þessu sinni hlaut Krónan viðurkenninguna. Margrét sagði meðal annars við afhendinguna að með hugmyndaauðgi, metnaði og samtakamætti hefðum við byggt upp þjóðfélag þar sem glæsilegur arkitektúr og hönnun fái að njóta sín, bæði í virðingu fyrir menningararfi fortíðar og í nýjum straumum. Hún sagði verkefni samtímans, þar á meðal græn iðnbylting sem snúist um að mæta loftslagsbreytingum, snerti hönnun í sínum víðasta skilningi. Það væru nýjar kröfur í samfélaginu, endurnýting, sjálfbærni og hringrásarhagkerfið væru orðin meginþemu sem framtíðarhönnun byggi á. Margrét sagði að í tilnefningunum í ár sæjum við verkefni sem endurspegli þessa nýju hugsun þar sem samfélagsleg ábyrgð, umhverfisvernd og nýsköpun komi saman. Hún óskaði öllum sem unnið hafi hörðum höndum að því að skapa vörur, staði og verk til hamingju með tilnefningarnar og hvatti þau til að halda áfram að setja markið hátt. Hún sagði að viðurkenningin fyrir bestu fjárfestingu í hönnun hafi verið sett á laggirnar að frumkvæði Samtaka iðnaðarins árið 2015 og þau væru því orðin mörg fyrirtækin sem státi af viðurkenningunni sem væri ætlað að draga fram hversu mikilvægt væri að hönnun sé frá upphafi hluti af stefnumótun og framkvæmdum, til að auka verðmætasköpun og bæta samkeppnishæfni. Margrét sagði að fyrirtækin sem hljóti þessa viðurkenningu hafi skarað fram úr með einstakri og framúrskarandi hönnun.
Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar ásamt samstarfsfólki.
Besta fjárfesting í hönnun: Krónan
Rökstuðningur dómnefndar: Krónan er til fyrirmyndar í margvíslegu samstarfi sínu við hönnuði. Það byggir á ríkulegri hugmyndauðgi og framsýni í umhverfismálum sem snýr m.a. að endurvinnslu og ýmis konar nýtingu hliðarafurða og afganga.
Krónan rekur alls 26 matvöruverslanir um land allt, þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt úrval og ferska vöru. Fyrsta Krónuverslunin var opnuð árið 2000. Krónan hefur sýnt mikinn vilja til stöðugra umbóta og leitar iðulega eftir samvinnu við viðskiptavini sína, birgja og þjónustuaðila um skref að grænari framtíð.
Krónan hefur frá árinu 2019 átt í samstarfi við marga leiðandi íslenska hönnuði, þar sem rauði þráðurinn er aukin umhverfisvitund og sjálfbærni. Þannig er neytendum auðveldað að gera umhverfisvænni innkaup, til að mynda með því að gera þeim flokkun umbúða þægilegri og bjóða upp á fjölnota poka og pappakassa, auka aðgengi að vatnspóstum til áfyllingar og með því að koma fyrndum varningi í lóg með niðursettu verði eða nýta hann sem hráefni í gróðuráburð. Allt er sett fram á skýran, einfaldan og ekki síður skemmtilegan hátt, sem ber hæfileikum hönnuðanna sem Krónan hefur valið sér til samstarfsins glöggt vitni.
Þá eru ótalin fordæmisáhrif slíkrar markaðssetningar auk fræðslugildis hennar, en í verslunum Krónunnar og á vef hennar má finna ýmsan fróðleik viðvíkjandi umhverfisvernd og meðvitaðri neyslu. Fordæmið felst ekki síður í því að standa með þeirri ákvörðun sinni að starfa með íslenskum hönnuðum, hönnunarnemum og -stúdíóum á borð við Studio Fléttu, Plastplan, Meltu og nemendur Listaháskóla Íslands.
Heildarsvipmót Krónunnar, sem unnið er í samstarfi við Brandenburg, vekur einnig eftirtekt. Krónunni hefur heppnast einstaklega vel að viðhalda heildarútliti vörumerkis síns og er það sama hvort um er að ræða smáforrit, auglýsingar, pakkningar, merkingar eða upplifun í verslunum.
Það er mat dómnefndar að fjárfesting í samstarfi af þessu tagi hafi margfeldisáhrif sem eru dýrmæt samfélaginu öllu, enda er í henni fólginn víðtækur samfélagsábati, heilmikið fjör og viðurkenning á gæðum og áhrifamætti íslenskrar hönnunar.
Staður: Smiðja, skrifstofubygging Alþingis eftir Studio Granda
Grétar Örn Guðmundsson, Steve Christer, Margrét Harðardóttir og Birgir Örn Jónsson.
Rökstuðningur dómnefndar: Smiðja sameinar á einum stað fundaaðstöðu og skrifstofur þingmanna og starfsfólks Alþingis í fimm hæða byggingu á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis í Reykjavík. Hönnun var í höndum arkitektastofunnar Studio Granda, í kjölfar samkeppni sem haldin var árið 2016.
Form byggingarinnar og gluggasetning eru við fyrstu sýn látlaus en steinklæðningin dregur að sér athygli og vísar í jarðsögu landsins og menningarminjar sem finna má í Kvosinni. Borðaklædd sjónsteypa og steinn, sýnileg utan- sem innanhúss, eru meðal höfundareinkenna Studio Granda. Þegar inn er komið eru þessi einkenni enn meira áberandi, sér í lagi á fyrstu hæð þar sem nefndastörf þingsins fara fram og gestagangur er sem mestur. Grjótið gegnir aðalhlutverki í útliti hússins að utan og víða á veggjum og í gólfi innanhúss. Allt grjót sem notað er í byggingunni hafði orðið aflögu við aðrar framkvæmdir og þess vegna þurfti ekki að sækja það sérstaklega í námu.
Listaverk eftir Kristin E. Hrafnsson er fellt inn í húsið við aðalinnganginn og verk eftir Þór Vigfússon er í lofti í forsal. Yfirbragð er mildara á efri hæðum í vinnurýmum þingmanna og starfsfólks Alþingis þar sem aukin áhersla er á eik og fleiri litir eru notaðir. Að því marki sem hægt er í svo þétt setinni byggingu, er unnið með sveigjanleika, hvort sem er með því að sameinina sali eftir þörfum eða með hreyfanlegum léttari veggeiningum milli skrifstofa.
Arkitektarnir leggja áherslu á íslenskan efnivið og handverk og mikil alúð hefur verið lögð við hvort tveggja hönnun og smíði. Húsgögnin eru hönnuð af arkitektum hússins fyrir utan endurnýjuð íslensk húsgögn úr safni Alþingis og stóla eftir Erlu Sólveigu Óskarsdóttur, framleidda hjá Á. Guðmundssyni.
Smiðja er borgarhús í hæsta gæðaflokki sem ber íslensku hugviti og handverki glæsilegt vitni.
Byggingin er lýsandi fyrir þróun höfundaverks Studios Granda, þar sem áherslur eru á borðamynstraða steinsteypta fleti, íslenskar steintegundir og eik. Hér sýna þau Margrét Harðardóttir og Steve Christer hve gott vald þau hafa á fagi sínu með því að sýna ögun og fylgja hönnuninni eftir niður í fínustu smáatriði í samspili steypu og steins. Eins gera þau sér að óvæntum leik að fara eftir heimatilbúnum reglum: svo sem að snúa gólfmynstri og rimlaverki á veggjum og í lofti ávallt í norður/suður stefnu í gegnum allt húsið; með því að tappar í kónagötum eru úr sama efni og gólflagningin í hverju rými; eða með því að láta lagskiptingu steinklæðninga innanhúss fylgja línum og gerðum klæðninganna utanhúss. Niðurstaðan er bygging sem í senn ber vott um mikla ögun og hönnunarástríðu.
Verkið er afrakstur opinnar samkeppni á vegum AÍ og FSRE fyrir hönd Alþingis, og byggingin inniber flókna og krefjandi starfsemi. Frábær hönnun og góð framkvæmd skila saman heildstæðu hugverki og glæsilega útfærðu handverki, Alþingi Íslendinga, íslensku hönnunarsamfélagi og íslensku þjóðinni allri til sóma.
Verk: Börnin að borðinu eftir Þykjó
Halldór Eiríksson, Sigríður Sunna, Ninna Þórðardóttir, Erla Ólafsdóttir og Embla Vigfúsdóttir.
Rökstuðningur dómnefndar: Ímyndunarafli og sköpunarkrafti barna og ungmenna eru fá takmörk sett — ef þau fá á annað borð tækifæri til þess að sleppa þessum kröftum lausum. Með verkefninu Börnin að borðinu er þeim gefin rödd og mikilvægasta fólkið þannig virkjað til alvöru áhrifa í gegnum það sem þau eru sérfræðingar í — sköpun og leik.
Hönnunarteyminu Þykjó tekst með frábærri nálgun sinni að fanga hugmyndir og smíða úr þeim tillögur að lausnum geta orðið að veruleika. Verkefnið krefst hvort tveggja hugrekkis og trausts því oft er ekki hlustað á börn þó að við heyrum vissulega flest hvað þau segja. Eins er takmörkuð hefð fyrir því að hugmyndum barna og ungmenna sé miðlað af alvöru og virðingu og unnið markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Í verkefni Þykjó er börnum liðsinnt við að hugsa praktískt, hvort sem það á við um leiksvæði eða ruslatunnur. Leikurinn er ávallt í forgrunni auk samveru, náttúru og fegurðar, vegna þess að börn vilja gjarnan blanda geði og þau vilja betri heim öllum til handa.
Það er fagnaðarefni og fordæmisgefandi að hönnun sé notuð til að efla samtal og skilning, m.a. þegar bæjarfélag deilir áformum sínum og draumum um framtíðina með börnum og kallar eftir samstarfi við þau. Þetta var hluti af virku samráði um nýtt rammaskipulag fyrir Ásbrú sem var samstarfsverkefni Kadeco og Reykjanesbæjar og unnið af Alta. Börn og ungmenni eru virkur og dýrmætur hluti samfélagsins og það þarf að gera ráð fyrir sjónarmiðum þeirra og þörfum.
Rammaskipulag er í hugum flestra býsna tyrfið hugtak og flókið viðfangsefni. Það er því ærin áskorun að miðla því til barna og virkja þau til þátttöku og samtals. Með vel ígrunduðum aðferðum og útsjónarsemi hefur Þykjó tekist vel upp. Verkefnið Börnin að borðinu sýnir hvernig hægt er að fá fram sjónarmið barna um flókin og viðamikil mál ef vilji er fyrir hendi. Mögulegt er að nýta verkefnið sem fyrirmynd á fleiri sviðum þar sem raddir barna og ungs fólks ættu að heyrast.
Hvaða merkingu leggja börnin í Reykjanesbæ í flókið rammaskipulag hvað varðar staði og svæði sem þau langar að dvelja í og deila með öðrum? Þykjó tekst með lunkni og hugvitssamlegri hönnun að setja upplýsingar fram á skýran og skemmtilegan máta sem allt í senn fræðir, valdeflir og virkjar þátttakendur. Verkefnið er framúrskarandi og góð fyrirmynd sem sveitarfélög geta sótt í, og það sýnir gildi þess að tryggja þátttöku barna í skipulagsverkefnum enda mikilvægt að sem flestar raddir fái að heyrast og hafa áhrif á mótun hins byggða umhverfis.
Hlustun og virkni í gegnum sköpun og leik virkja krafta allra kynslóða — og við þurfum á ímyndunarafli að halda til að skapa spennandi og sjálfbæra framtíð. Þykjó tekst að fanga hugmyndir fólksins sem sannarlega býr yfir einna mestu af slíku afli og smíða úr þeim áætlun þar sem tillögur að lausnum gætu vel orðið að veruleika. Það er síðan í höndum Reykjanesbæjar að hrinda þeim í framkvæmd.
Vara: Peysan James Cook, unnin í samstarfi Helgu Lilju Magnúsdóttur fatahönnuðar og Stephan Stephensen listamanns fyrir BAHNS
Helga Lilja Magnúsdóttir.
Rökstuðningur dómnefndar: Peysan James Cook er frábært dæmi um hvernig góð hönnun getur haft jákvæð félagsleg áhrif. Með tímanum hefur orðið til samfélag unnenda James Cook peysunnar sem með réttu má kallast nútímaklassík í íslenskri hönnun. Tekist hefur að skapa einkennandi mynstur heim sem sækir innblástur í ljósmerki siglingabaujanna sem leiðbeina sjófarendum, en mynstrið er jafnframt að finna í sundfatnaði BAHNS og ýmsum öðrum prjónaflíkum. Peysan hentar öllum kynjum og aldurshópum og er framleidd í takmörkuðu upplagi og mismunandi litaútfærslum og því felst í henni ríkt söfnunargildi.
BAHNS fellur undir skilgreiningu hægtísku og fer ekki að dæmi tískuiðnaðarins um að setja stöðugt nýjar vörur á markað. Prjón er í eðli sínu umhverfisvæn aðferð við að framleiða fatnað þar sem litlu hráefni er sóað. Hönnun og gerð peysanna miðar einnig að löngum líftíma þeirra og góðri endingu.
Peysan James Cook er gott dæmi um framúrskarandi íslenska hönnunarvöru sem hafin er yfir síkvika strauma tíðaranda og hugsuð er og framleidd fyrir íslenskan veruleika og veðurfar. Hönnun og framleiðsluferli hefur verið gefið mikið vægi, svo að úr verður vönduð og persónuleg flík sem endist vel.
Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands 2024: Gísli B. Björnsson
Gísli B. Björnsson og Lilja Alfreðsdóttir.
Rökstuðningur dómnefndar: Gísli B. Björnsson hefur tryggt sér sess sem einn áhrifamesti grafíski hönnuður okkar Íslendinga síðustu áratugi, ekki aðeins með þeim fjölda þekktra verka sem hann hefur skilað af sér yfir starfsferilinn, heldur einnig með framlagi sínu til kennslu í faginu. Gísli kenndi auglýsingateikningu og grafíska hönnun í 50 ár, fyrst í Myndlista- og handíðaskólanum (MHÍ) og síðar í Listaháskóla Íslands. Árið 1962 stofnaði Gísli auglýsingadeild MHÍ og sinnti þar starfi deildarstjóra í alls 21 ár og árin 1973-1975 var hann skólastjóri MHÍ. Með kennslunni hefur Gísli miðlað þekkingu sinni til margra kynslóða grafískra hönnuða og þannig lagt verulegan skerf til greinarinnar hér á landi.
Verkin sem Gísli hefur fengist við eru margskonar, en merkjahönnun verður að teljast það form sem hann hefur náð mestu valdi á. Merki er lítið í formi sínu, en það þarf að geta borið mikla merkingu. Meðal verka Gísla eru merki Ríkisútvarpsins, hannað í samstarfi við Hilmar Sigurðsson, Listasafns ASÍ, Norræna félagsins, SÍBS, Hótels Holts, Hjartaverndar, Hjálparstarfs kirkjunnar, BHM, Iceland Review, Múlalundar, Landbúnaðarháskóla Íslands og svo mætti lengi áfram telja. Mörg þessara merkja lifa enn góðu lífi þó að þau séu áratuga gömul.
Auk þessa hefur Gísli haldið utan um merkjasögu Íslands, annarsvegar sitt eigið efni og hinsvegar um þróun og breytingar á merkjum eftir aðra hönnuði.
Á þessum tíma hefur fagið gengið í gegnum gífurlegar breytingar í prenttækni, tölvuvæðingu og markaðsmálum. En grunngildi Gísla hafa staðist tímans tönn vel. Hann hefur alla tíð haft skýra fagurfræðilega sýn, hann er vandvirkur, óhræddur við uppbyggilega gagnrýni, ekki síst á eigin störf, hefur mikla teiknihæfileika og djúpa þekkingu sem hann hefur miðlað í kennslu.
Gísli er fæddur árið 1938. Áhugi hans á listum sprettur upp úr umhverfi hans, en afi hans var Baldvin Björnsson (1879-1945) gullsmiður og myndlistarmaður og föðurbróðir hans var Björn Th. Björnsson (1922 - 2007) listfræðingur. Þessir menn höfðu mikil áhrif á Gísla í æsku.
Sautján ára hóf Gísli nám í hagnýtri myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hér kom frumkvöðulseðli hans fljótlega fram, en námið var svo að segja sniðið sérstaklega að honum. Ári seinna hélt hann til Þýskalands í framhaldsnám við Staatliche Akademie der Bildenden Künste í Stuttgart. Frá því að hann sneri heim úr námi 1961 hefur hann unnið ötullega að framgangi fagsins. Sama ár og hann kom heim stofnaði hann Auglýsingastofuna hf. og rak til 1965 en þá stofnaði hann GBB auglýsingastofuna sem hann stýrði til 1989.
Gísli B. Björnsson er einn áhrifamesti grafíski hönnuður okkar Íslendinga. Ævistarf hans er mjög yfirgripsmikið, sem hönnuður, myndlistamaður, frumkvöðull í fyrirtækjarekstri og kennari margra kynslóða fagmanna í grafískri hönnun. Gísli skilur eftir sig merkilegt ævistarf sem um þessar mundir er verið að skrásetja á Hönnunarsafni Íslands þar sem verk hans munu eflaust veita öðrum innblástur um ókomna tíð.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Dómnefnd, talið frá vinstri, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Erling Jóhannesson, Halldór Eiríksson, Sigurlína Margrét Osuala, Eva María Árnadóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar.
Kynnar voru Magnea Guðmundsdóttir og Búi Bjarmar Aðalsteinsson.
Viðskiptablaðið, 10. nóvember 2024.