Fréttasafn16. jún. 2022 Almennar fréttir

Viðurkenning Verðlaunasjóðs iðnaðarins til hampræktenda

Fjölskyldufyrirtækið Geislar Gautavík hefur hlotið viðurkenningu Verðlaunasjóðs iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar vegna tilraunaræktunar á iðnaðarhampi og úrvinnslu vara úr honum. Árni Sigurjónsson, formaður SI, afhenti eigendum fyrirtækisins, hjónunum Oddnýju Önnu Björnsdóttur, viðskiptafræðingi, og Pálma Einarssyni, iðnhönnuði, viðurkenninguna við athöfn sem fór fram í Húsi atvinnulífsins. Viðurkenningarhafar hljóta 2 milljónir króna ásamt sérstökum verðlaunagrip og verðlaunaskjali.

Í umsögn stjórnar sjóðsins segir meðal annars: „Ástæða þess að Geislar Gautavík hlýtur viðurkenningu sjóðsins að þessu sinni er að eigendur fyrirtækisins hafa unnið ötullega að vitundarvakningu um notagildi iðnaðarhamps og möguleikum hans til að stórauka sjálfbærni á fjölmörgum sviðum. Eigendurnir eru því sannkallaðir frumkvöðlar og brautryðjendur. Breytingar á lögum um innflutning, meðferð og vörslu iðnaðarhamps hafa gert ræktun á iðnaðarhampi á Íslandi mögulega. Stjórn sjóðsins vill með þessu vali beina sjónum að þeim tækifærum sem geta fylgt hampframleiðslu á Íslandi þar sem jákvæðir eiginleikar nytjaplöntunnar geta meðal annars gagnast í byggingariðnaði, matvælaframleiðslu og húsgagnaframleiðslu.“

Geislar Gautavík var stofnað 2012 og er staðsett í Gautavík í Berufirði sem er í ríflega 20 mínútna akstursfjarlægð frá Djúpavogi. Hampur er harðger planta sem vex hratt og þolir vel íslenskt veðurfar. Notagildi plöntunnar er fjölbreytt en hægt er að nýta afurðir plöntunnar meðal annars í framleiðslu á matvöru, netum, reipum, seglum, ýmiskonar byggingarefnum, dagblöðum og umbúðum, vefnaði, snyrtivörum, fæðubótarefnum, húð- og hárvörum. Fyrirtækið hefur þegar sett matvöru unna úr eigin ræktun á hampi á markað en um er að ræða te selt í neytendaumbúðum, auk framleiðslu á hampsmyrsli.

Sjóðsstjórnina skipa Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, Sigrún Kristjánsson, fulltrúi fjölskyldu stofnanda sjóðsins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Við val á verðlaunahafa hafði sjóðstjórn einkum eftirfarandi í huga sem gefur til kynna hvað fyrir stofnendum vakti með sjóðnum:

  1. Uppfinningar sem líklegar teljast til að koma íslenskum iðnaði að gagni.
  2. Einstaklinga og fyrirtæki fyrir happadrjúga forystu í uppbyggingu iðnaðar hvort sem er til innanlandsnota, sölu erlendis eða fyrir forystu á sviði iðnaðarmála almennt.
  3. Verðlaunin má einnig veita fyrir sérlega vel gerða iðnaðarframleiðslu sem fram kemur t.d. á iðnsýningum eða kaupstefnum.
  4. Þá má einnig veita verðlaun fyrir hönnun sem hefur tekist sérlega vel að dómi sjóðsstjórnar.

Um Verðlaunasjóð iðnaðarins

Verðlaunasjóður iðnaðarins var stofnaður 1976 af Kristjáni Friðrikssyni og eiginkonu hans Oddnýju Ólafsdóttur. Tilefnið var m.a. að þá voru liðin 35 ár frá stofnun Klæðagerðarinnar Últímu en einnig það að Kristján hafði óbilandi trú á íslenskum iðnaði og íslenskri hönnun. Honum fannst aldrei nógsamlega vakin athygli á hinum fjölmörgu íslensku uppfinningarmönnum. Stofnfé Verðlaunasjóðs iðnaðarins var húseign sem Últíma gaf og skyldi ágóðinn af eigninni verða verðlaunafé.

Verðlaunasjóður iðnaðarins hefur verið starfræktur í anda stofnenda hans í samstarfi við Samtök iðnaðarins og hefur með vissu millibili veitt viðurkenningar, oftast fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar. Samkvæmt upphaflegri stofnskrá sjóðsins er tilgangur hans að örva til dáða á sviði iðnaðar og jafnframt vekja athygli á þeim afrekum sem unnin hafa verið og unnin verða á því sviði.

Um verðlaunagripinn

Verðlaunagripurinn sem heitir „hjólið“ en hjól er oft notað sem tákn fyrir uppgötvun, framfarir og virkni, er verðlaunahönnun Péturs Baldvinssonar úr samkeppni sem haldin var meðal nemenda í Myndlista- og handíðaskóla Íslands veturinn 1998. Gripurinn er líka táknrænn fyrir hjól atvinnulífsins, hreyfingu - andstöðu við kyrrstöðu. Þess vegna er ætlast til að hjólið leiki frjálst á stalli sínum sem er grágrýtisteningur sóttur í íslenska náttúru. Hjólið sjálft er smíðað úr einu helsta iðnaðarhráefni Íslendinga, áli, sem er rafbrynjað þannig að yfirborð þess nær hörku og slitþoli eðalmálma.

Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir frá athöfninni.

Mynd/BIG

Viðurkenningarhafar ásamt stjórn Verðlaunasjóðs iðnaðarins, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Pálmi Einarsson, iðnhönnuður, Oddný Anna Björnsdóttir, viðskiptafræðingur, Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigrún Kristjánsdóttir, fulltrúi fjölskyldu stofnanda sjóðsins. 

Si_verdlaunasjodur_idnadarins_2022-1Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Si_verdlaunasjodur_idnadarins_2022-7Árni Sigurjónsson, formaður SI.

Si_verdlaunasjodur_idnadarins_2022-13Oddný Anna Björnsdóttir, Geislar Gautavík.

Si_verdlaunasjodur_idnadarins_2022-17Pálmi Einarsson, Geislar Gautavík. 

Si_verdlaunasjodur_idnadarins_2022-2

Si_verdlaunasjodur_idnadarins_2022-3

Si_verdlaunasjodur_idnadarins_2022-26