Fréttasafn22. sep. 2015 Menntun

Viðurkenningar fyrir þátttöku í GERT verkefninu

Þátttökuskólar í GERT verkefninu skólaárið 2014-2015 hafa hlotið viðurkenningu fyrir þátttöku í verkefninu. Skólarnir eru:

  • Garðaskóli í Garðabæ

  • Grunnskóli Húnaþings vestra

  • Grunnskólinn á Ísafirði

  • Norðlingaskóli í Reykjavík

Skólarnir eru frumkvöðlar við útfærslu vinnunnar og ákvað stýrihópur verkefnisins að veita þeim viðurkenningu fyrir vel unnin störf.

Á síðasta skólaári var samstarfið breytilegt og mis umfangsmikið á milli skóla en allt með það að markmiði að þróa samstarf þátttökuskólanna og fyrirtækja í nærumhverfi þeirra svo nemendum gæfist tækifæri á að kynnast fjölbreytni atvinnulífsins, tæknivæðingu og nýsköpun.

Skólaárið 2015-2016 er lagt upp með að fjölga þátttökuskólum og hafa nú þegar 7 skólar lýst yfir áhuga á samstarfi. Á næstu vikum mun verkefnastjórinn heimsækja skólana, fara yfir hvað felst í verkefninu og veita aðstoð við að rúma samstarf atvinnulífsins við skólastarfið.

GERT  – Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni er heiti aðgerðaáætlunar Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmiðið er að brúa það bil sem er milli núverandi stöðu, framtíðarþarfa nemenda og vinnumarkaðar. Verkefnið hófst 2012 með því að settur var á stofn starfshópur og unnin var skýrslan “Staða íslenskra nemenda og framtíðarþörf samfélagsins”. Í kjölfarið kortlagði hópurinn stöðu raunvísinda- og tæknimenntunar m.t.t. frammistöðu nemenda, viðhorf, mat kennara og forspár um þörf fyrir tæknimenntað fólk. Að lokum var sett fram aðgerðaráætlun sem unnið er eftir og snýst um að auka áhuga nemenda á raunvísindum og tækni, verkmenntun og störfum sem þeim tengjast.