Fréttasafn



2. nóv. 2022 Almennar fréttir Menntun

Vilja sameiginlegt átak til að betrumbæta skólakerfið

Framkvæmdastjóri SI er meðal 24 höfunda greinar sem birt er á Vísi með yfirskriftinni Auðurinn í drengjunum okkar þar sem segir að með sameiginlegu átaki getum við betrumbætt skólakerfið og gefið börnunum okkar tækifæri og framúrskarandi umhverfi til að blómstra. Ekkert barn eigi að þurfa að týnast á Íslandi sökum ósanngjarnra áskorana í opinberu kerfi sem allir verði að ganga í gegnum í tíu ár. 

Í greininni segir að það sé áhyggjuefni að brottfall drengja í framhaldsskóla sé 40% meira en brottfall stúlkna. Í Háskóla Íslands séu aðeins 32,1% af nemendum karlkyns og hafi hlutfallið lækkað hratt undanfarin ár en það hafi verið 37,2% fyrir aðeins þremur árum. Þetta lága hlutfall sé ekki vegna þess að konur hafi óvenju hátt skráningarhlutfall í framhaldsnám. Innritunarstig kvenna í háskóla á Íslandi sé við meðaltal OECD en innritunarstig karla undanfarin ár sé hinsvegar með því lægsta sem mælist. Árið 2020 voru 47,6% kvenna með háskólamenntun en einungis 34,3% karla. Þessi munur aukist ár frá ári og sé „óvíða jafn mikill og á Íslandi“ eins og komi fram í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytis um samantekt á menntatölfræði OECD frá 2018.

Í greininni er birtur listi yfir nokkur tækifæri til betrumbóta sem sé áminning um að hægt sé að sækja fram víða og á fjölbreyttan hátt. Þar segir að vissulega sé áskorunin flókin og umfangsmikil. Fyrsta skrefið hljóti að vera að viðurkenna að vandi sé til staðar og að hann sé alvarlegur. Næsta skref kunni að vera að reyna að ná fram skipulagi á umræðum, leita að lausnamengi og bjóða skólum, atvinnulífi, stjórnvöldum og sveitarfélögum að sækja fram saman. Í niðurlagi greinarinnar segir að flestir geti líklega sammælst um að við viljum og eigum að geta boðið börnunum okkar upp á skólagöngu þar sem við vekjum áhuga þeirra og ræktum forvitni í umhverfi þar sem vellíðan og tilgangur þrífist.

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni. 

Undir greinina rita auk Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, eftirtaldir: frú Vigdís Finnbogadóttir, Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Ásta Fjeldsted, forstjóri Festis, Erna Arnardóttir, mannauðsstjóri CCP, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Atnorth, Finnur Oddsson, forstjóri Haga, Guðfríður Svana Bjarnadóttir, forstöðumaður strategic partnerships hjá Marel, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66 Norður, Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona, Inga Lind Karlsdóttir, fjölmiðlakona og framleiðandi, Jón Pétur Zimzen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, Júníus Meyvant, tónlistarmaður, Liv Bergþórsdóttir, forstjóri, Magnea Huld Aradóttir, grunnskólakennari, Magnús Scheving, frumkvöðull, Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, Snorri Björnsson, hlaðvarpsstjórnandi, Svafa Grönfeldt, prófessor hjá MIT, Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Kara Connect, Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, og Þorvaldur Davíð Kristjánsson, leikari.

Hopmynd-nota