Fréttasafn



24. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Vinna þarf hratt að bættum skilyrðum fyrir nýsköpun

Nýsköpun er ein meginforsenda aukinnar framleiðni, verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og gjaldeyrisöflunar fyrirtækja og þjóða. Ísland hefur raunverulegt tækifæri til að verða nýsköpunarland en það mun ekki gerast af sjálfu sér. Nú þurfum við að nýta þetta tækifæri. Vinna þarf hratt að uppbyggingu og bættum skilyrðum fyrir nýsköpun. Hugarfarið skiptir einnig sköpum og þarf það að endurspeglast í forgangsröðun í ríkisfjármálum og sýn og stefnu stjórnvalda. Við gerum þetta ekki í einu skrefi eða á einni nóttu. Að byggja upp nýsköpunardrifið hagkerfi mun krefjast þolinmæði, þrautseigju og stöðugra umbóta. Ef vel tekst til verður uppskeran ríkuleg. Þetta segja Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein í Markaðnum sem ber yfirskriftina Uppskeran verður ríkuleg.  

Engar  töfralausnir í boði

Í greininni kemur fram að skapa þurfi 60 þúsund ný störf hér á landi á næstu 30 árum. Um sé að ræða 2 þúsund ný störf á ári. Þetta sé sá fjöldi sem þarf til að ná atvinnuleysinu niður á viðunandi stig ásamt því að mæta fjölgun á vinnumarkaði á þessum tíma og viðhalda góðum lífskjörum hér á landi. Bráðavandinn sé atvinnuleysið sem sé nú í sögulegum hæðum og reiknað sé með að verði um 10% um áramótin. Það þýði að um 20 þúsund manns séu án atvinnu sem vilji og geti unnið. Verkefnið sé ærið og það séu engar töfralausnir í boði. Ný störf verði ekki til nema með sköpun nýrra verðmæta.

Skipta þarf um kúrs

Þá segja þau að fjölgun starfa á síðustu áratugum hafi að stórum hluta verið knúin áfram af aukinni auðlindanýtingu en nú þurfi að skipta um kúrs. Ólíklegt sé að við munum á næstu áratugum sækja hagvöxt með aukinni auðlindanýtingu. Framtíðin velti á því hversu vel okkur takist að skapa grundvöll fyrir fjölgun starfa en það þurfi að gera með því að virkja hugvitið í ríkara mæli til verðmætasköpunar. Nýsköpun sé þannig eina leiðin fram á við því með nýsköpun verði til aukin verðmæti úr takmörkuðum auðlindum og nýjar atvinnugreinar líta dagsins ljós.

Hér er hægt að lesa grein þeirra Sigríðar og Ingólfs í heild sinni.