Fréttasafn



16. jan. 2020 Almennar fréttir

Virkja þarf hugvitið meira til að drífa vöxt framtíðar

Við þurfum auðvitað horfa meira í þá átt að virkja hugvitið í meira mæli og þess vegna hafa samtökin ákveðið að 2020 sé ár nýsköpunar. Þá erum við að fylgja okkar áherslum og áherslum stjórnvalda því stjórnvöld kynntu nýsköpunarstefnu í fyrra og við viljum auðvitað styðja við það, fylgja því eftir og velta því fyrir okkur hvað mun verða til að drífa vöxt framtíðar og hvernig við getum stutt við það. Það verða fjölmargir viðburðir yfir árið og fjallað um þetta á Iðnþinginu þar sem við munum gera þessu góð skil. Þetta er meðal þess sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í samtali við Jón G. Hauksson í þættinum Viðskipti á Hringbraut. Hann segir mikla uppsveifla hafa verið núna meðal annars í ferðaþjónustu og öðrum greinum. „En núna er að hægja á þannig að við þurfum að líta í nýjar áttir. Við eigum glæsilega fulltrúa nýsköpunar og vaxtar, fyrirtæki eins og Marel og Össur og fleiri.“ 

Margt sem gerir samkeppnishæfnin erfiðari

Þegar Jón spyr Sigurð hverjar helstu áskoranir iðnaðarins séu dag segir hann ástandið vera erfitt fyrir mörg iðnaðarfyrirtæki, ekki síst í framleiðslu, fyrirtæki sem eru að framleiða fyrir innlendan markað í samkeppni við innfluttar vörur og eins og á byggingamarkaði. „Við sjáum að fjöldi launþega fækkar. Atvinnuleysi er ákveðinn mælikvarði á stöðuna. Það var samdráttur í efnahagslífinu í fyrra. Þetta kemur ofan á launahækkanir. Hér eru hærri skattar en annars staðar og sveiflur hafa verið meiri hér en annars staðar. Allt gerir þetta samkeppnishæfnina erfiða og gleymum því ekki að samkeppnishæfni er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Eftir því sem samkeppnishæfnin er meiri því mun meiri verðmæti verða til og því meira verður til skiptanna.“

Sigurður segir að þess vegna hafi samkeppnishæfnin verið mikið áherslumál hjá samtökunum núna síðustu árin. „Samtökin hafa verið mjög öflug og notið ríkulegra krafta formannsins, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem hefur staðið sig mjög vel. Við höfum núna gefið út sjö skýrslur og rit um þessi mál. Við höfum tekið stöðu innviðanna, greint samkeppnishæfnina, við höfum gefið út skýrslu um atvinnustefnu þar sem horft er til ársins 2050 og hvað þurfi að gera til þess að bæta stöðuna, við höfum gefið út skýrslu um menntamál, um nýsköpun, um raforkumálin og um ábyrgðir í byggingariðnaði. Þannig að við höfum viljað leggja okkar af mörkum.“

Atvinnulífið tók frumkvæði í loftslagsmálum

Sigurður segir í viðtalinu að nýsköpun sé ákveðin fjárfesting sem leiði vonandi til útflutnings ef allt gengur eftir. „Við sem þjóð þurfum að huga að að auka útflutningstekjur okkur. Það er tvennt sem ég vil nefna sem ég er sérstaklega ánægður með. Fyrir utan þessa viðamiklu stefnumótunarvinnu þá er það að atvinnulífið tók frumkvæðið í loftslagsmálum og stofnaði Grænvang með stjórnvöldum. Þetta er einstakt þegar litið er til annarra landa. Hitt málið sem ég er sérlega ánægður með og við hjá samtökunum en það er að núna prýða íslensk húsgögn suðurstofu Bessastaða. Forsetinn tók áskorun okkar vel þessa efnis og þetta var klárað í júní í fyrra.“ 

Þá sagði Sigurður að verkefnið Íslenskt gjörið svo vel hafi verið sett í gang 2017 og væri enn við lýði. „Þetta er ákveðin vitunarvakning eða hvatning um það að horfa til þess sem við erum að gera hér. Því það skiptir okkur öll máli að hér séu sköpuð verðmæti og að hér séu störf fyrir okkur öll.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á þáttinn.

Hringbraut, 15. janúar 2020.