Fréttasafn



8. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Virkja þarf meira og bæta flutningskerfi raforku

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í viðtali Heimis Karlssonar og Gunnlaugs Helgasonar í Bítinu á Bylgjunni, um skerðingu á orku til atvinnustarfsemi að það hafi verið ljóst fyrir löngu í hvað stefndi og núna hafi komið upp þessar aðstæður þar sem er lélegt vatnsár, það sé lítið í lónum og þar af leiðandi minna til af orku en venjulega. 

Sigurður segir að einnig séu kerfisleg vandamál þar sem flutningskerfið sé ekki gott og þurfi að styrkja. „Þannig að það tekst ekki að koma orkunni þangað sem á að nýta hana. Þeirri orku sem til er.“ Hann segir það vera mat Landsnets að það renni tveir milljarðar á ári til sjávar og þegar afleidd áhrif séu tekin með í iðnaðinum þá geti það verið allt að 10 milljarðar sem renni til sjávar. „Það eru engar smá fjárhæðir. Hitt er svo að það hefur ekkert verið virkjað svo neinu nemi í mörg ár.“

Þegar Sigurður er spurður af hverju rafmagnið hafi ekki skammtað fyrir ári segir hann eina skýringuna vera þá að framleiðsla hafi dregist saman í Covid og nefnir sem dæmi að álverin hafi ekki verið keyrð á fullum afköstum í fyrra. „En núna er staðan sú í heiminum að það er mikil spurn eftir orku, það er verið að framleiða mjög mikið og þess vegna er kerfið þanið til hins ýtrasta. Iðnaðurinn er á fleygiferð, hvort sem það er málmframleiðslan eða gagnaverin, svo er loðnuvertíð framundan.“ Hann segir að miðað við kerfið í dag þá getum við ekki nýtt orkuna betur sem sé auðvitað alvarlegt mál. Tvennt þurfi að gerast, virkja meira og bæta flutningskerfið.

Kerfið of flókið

Þegar Sigurður er spurður af hverju ekkert hafi verið gert í þessu í mörg ár segir hann ýmsar ástæður fyrir því. „Hvað varðar flutningskerfið þá hefur Landsnet verið að huga að framkvæmdum þar en ferlið er svo ofboðslega flókið þannig að það hefur orðið mjög lítið um framkvæmdir. Allar framkvæmdir verða bara að deiluefnum.“ Hann segir pólitíkina þvælast fyrir og kerfið. „Kerfið sjálft er of flókið hjá okkur. Núverandi línur duga ekki til, þær hafa ekki næga getu til að flytja orkuna sem þarf.“ 

Ráðherrar bregðast við af festu og viðbrögðin lofa góðu

Sigurður segir málin geta verið mörg ár í kerfinu. „Af reynslunni að dæma þá eru slík mál í mörg ár inn í kerfinu nema grípið verði inn í. Það er gott að sjá það að ráðherrarnir hafa brugðist við af festu og þeirra viðbrögð lofa góðu í þessum efnum, bæði Guðlaugur Þór orku- og umhverfismálaráðherra og svo innviðaráðherrann Sigurður Ingi.“ Hann segir mikið mál að vísa þurfi frá erlendum aðilum sem hafa áhuga á að koma til landsins til að setja upp atvinnustarfsemi. „Það segir sig sjálft að það er flókið að afla nýrra viðskipta á meðan staðan er svona. Þannig að áhugamönnum um fjölbreyttari orkusækinn iðnað, sem eru fjölmargir, þeir hljóta að hafa áhyggjur af þeirri stöðu.“

Þarf að bretta upp ermar og fara af stað strax

Þegar Sigurður er spurður hversu lengi væri verið að laga þetta segir hann það mikið mál. „Þetta er mælt í einhverjum árum. Það að virkja tekur fleiri fleiri ár en auðvitað þurfum við að bretta upp ermar og fara af stað strax. Við getum ekki beðið lengur með þetta. Við megum heldur ekki gleyma því að framtíðin er orkuháð. Fjórða iðnbyltingin er háð orku, hvort sem er í öllum tækjunum sem við erum að nota eða gögnin sem við erum að nota á hverjum einasta degi.“ Hann segir að hinn vinkillinn á þessu séu loftslagsmáli og . með því að skerða orku núna þá þurfa bræðslurnar að nota olíu til að keyra verksmiðjurnar áfram. „Það er þvert á öll markmið okkar í loftslagsmálum og líka þvert á markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland 2040 sem þýðir að það verður engin olía notuð á landinu eftir það.“

Bjartsýnn á að farið verði í framkvæmdir

Sigurður svarar játandi þegar hann er spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ný ríkisstjórn geri eitthvað í þessu á þessu kjörtímabili. „Já, ég er mjög bjartsýnn á það. Það er ekkert annað í stöðunni en að fara í þetta. Það er ekki hægt að bjóða landsmönnum upp á þá stöðu eftir eitt óveður þá sé hluti landsins án raforku í fleiri fleiri daga.“ Hann segir að nýta þurfi orkuna betur og nýta þá kosti sem séu til staðar. „Það þarf bara að hugsa raunsætt í þessu. Ef við viljum að landsmenn hafi aðgang að öruggri orku þá bara kallar það á framkvæmdir.“

Nær ótakmörkuð eftirspurn eftir grænni orku

Þegar Sigurður er spurður hvað vanti mikið rafmagn segir hann eftirspurnina vera mikla. „Við megum ekki gleyma því að á heimsvísu þá er nær ótakmörkuð eftirspurn eftir grænni orku sem við eigum nóg af hér. Það er þá bara spurning um hvar við viljum draga línuna. Orkuskiptin eru framundan og það þarf að afla orku fyrir það. Það eru fjölmargir möguleikar sem bíða okkar. Þessar umbreytingar sem eru að verða, bæði fjórða iðnbyltingin en líka þessi grænu umskipti í orkumálum sem er iðnbyltingin út af fyrir sig, þau kalla á meiri orkunotkun.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 8. desember 2021.