Fréttasafn



9. feb. 2021 Almennar fréttir Mannvirki

Virkniskoða gæðastjórnunarkerfi í byggingariðnaði

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, hefur ráðist í viðamikið verkefni með virkniskoðunum gæðastjórnunarkerfa hjá eftirlitsskyldum fagaðilum í íslenskum byggingariðnaði en 4.500 slík gæðastjórnunarkerfi eru skráð hjá HMS. Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins frá því síðastliðið haust. Áður en hafist var handa þurfti að greina ýmis gögn en töluvert er til af verklagsreglum, skoðunarhandbókum og eyðublöðum sem kominn var tími til að endurskoða. Samráð var haft við helstu hagsmunaðila, s.s. stærri verktaka og Samtök iðnaðarins um verkefnið. Þá var samráð haft við BSI á Íslandi og Frumherja um verkefnið. Samhliða átakinu er gert ráð fyrir að kynningarefni fyrir fagaðila verði aðgengilegt á vef HMS. Einnig er gert ráð fyrir að Iðan fræðslusetur muni halda sérstök námskeið fyrir fagaðila um sama málefni. 

Skráning gæðastjórnunarkerfa hjá HMS er forsenda fyrir því að mega taka að sér byggingarleyfisskyld verk. Á vef HMS segir að kerfin sem notuð eru í byggingariðnaði þurfi ekki endilega að vera flókin í uppbyggingu og krefjist fyrst og fremst utanumhalds um gögn, svo sem staðfestingar á hæfni og endurmenntun, samskipti við tengda aðila, skrá yfir úttektir, verkskráningu, lýsingar á úttektum og á innra eftirliti.

Flestir stærri verktakar, hönnuðir og verkfræðistofur hafa þegar innleitt og tekið í notkun viðameiri gæðastjórnunarkerfi sem mörg hver eru ISO 9001 vottuð af faggiltri vottunarstofu. Minni aðilar hafa flestir einfaldara kerfi sem eru skráð hjá HMS en einnig þarf að gæta þess að þau séu samþykkt til notkunar af HMS. Eitt af því sem virkniskoðun HMS mun leiða í ljós er hversu vel innra eftirliti er háttað og því fylgt eftir.

Tvær faggiltar skoðunarstofur, BSI á Íslandi og Frumherji, hafa starfsleyfi HMS og munu þær framkvæma eftirlitið í samvinnu við starfsfólk sviðs Öryggis mannvirkja hjá HMS. Kannað verður hvort gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra, hönnuða, hönnunarstjóra og iðnmeistara séu í virkri notkun og hvort þau séu í samræmi við settar reglur en forsenda fyrir því að aðilar megi taka að sér byggingarleyfisskyld verk, er að þeir séu með gæðastjórnunarkerfi sín skráð og samþykkt hjá HMS. Stefnt er að því á næstu árum að búið verði að kanna virkni gæðastjórnunarkerfa allra fagaðila sem viðurkenndir hafa verið af HMS.

Á vef HMS er hægt að nálgast frekari upplýsingar.