Fréttasafn



28. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Mannvirki

Vistvæn mannvirkjagerð orðið risastórt mál

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, segir í sérblaði um sýninguna Verk og vit að það hafi átt sér stað mjög miklar tækniframfarir á örfáum árum og aðferðafræði iðnaðarins hafi að sama skapi tekið breytingum. Hún segir í viðtalinu að frá síðustu sýningu Verk og vit sem var árið 2019 sé eitt mál sem lítið hafi verið rætt um þá en sé orðið risastórt í dag og það sé vistvæn mannvirkjagerð og hvernig byggingariðnaðurinn eigi að mæta sínum skuldbindingum hvað sjálfbærni varðar.

Jóhanna Klara segir byggingariðnaðinn mjög rótgróinn og þegar fólk hugsi til geirans leiti hugurinn oftast fyrst til stórra verktakafyrirtækja sem hafa verið í stóru hlutverki innan geirans í áraraðir. En það megi ekki gleyma því að það séu einnig að koma upp nýsköpunarfyrirtæki í greininni. „Það er mikil þróun og gerjun í gangi innan fyrirtækja í iðnaði og spanna þau mjög breitt svið. Virðiskeðjan í byggingariðnaðinum inniheldur marga hlekki og er mjög löng. Það eru margir ólíkir aðilar sem koma að uppbyggingarverkefnum, allt frá því að byggingin er á hugmyndastigi þar til komið er að því að reisa hana. Því er svo mikilvægt að það sé til staðar vettvangur eins og Verk og vit, þar sem fyrirtæki sem gegna ólíku hlutverki í virðiskeðjunni koma saman og miðla þekkingu sín á milli.“ 

Byggingariðnaðurinn að þróast hratt

Jóhanna segir í viðtalinu um stöðu byggingariðnaðarins hér á landi undanfarin misseri að hún hafi heilt yfir verið góð. „Iðnaðurinn er að þróast hratt og til einföldunar má flokka hann í þrjá hluta. Fyrsti flokkurinn eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í útboðsmarkaðnum tengt innviðaframkvæmdum og starfa því mikið fyrir hið opinbera. Annar flokkurinn eru fyrirtæki sem starfa við uppbyggingu gera hjá fyrirtækjum sem koma að innviðauppbyggingu, m.a. vegna átaks stjórnvalda sem fól í sér auknar opinberar innviðaframkvæmdir til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins. Það eru mörg stór verkefni framundan á vegum ríkis og sveitarfélaga, og er Borgarlínan sennilega það allra stærsta.“ 

Mörg spennandi verkefni í gangi 

Þá kemur fram í viðtalinu við Jóhönnu Klöru að í september 2019 hafi íbúðatalning SI sýnt fram á að hægst hafi töluvert á íbúðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. „Í kjölfarið var farið að kalla eftir því úr mörgum áttum að spýtt yrði í lófana í íbúðauppbyggingu og því kalli hefur að einhverju leyti verið svarað undanfarið. Það er því orðið talsvert mikið að gera hjá fyrirtækjum sem starfa á þessu sviði. Það er einnig nokkuð mikið að gera hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í viðhaldi, m.a. vegna áframhalds á „Allir vinna“ átaki stjórnvalda. Það hefur því ekki skort á verkefni hjá flestum þessara fyrirtækja.“ Hún segir að heilt yfir sé staðan innan byggingariðnaðarins því góð. „Það er í nægu að snúast hjá flestöllum fyrirtækjum og mörg spennandi verkefni í gangi. Það má heldur ekki gleyma því að við erum með arkitekta- og verkfræðistofur innan okkar raða, sem má segja að séu fyrsti hlekkurinn í virðiskeðjunni. Það er einnig mikið að gera hjá þeim og fjöldi skemmtilegra verkefna á teikniborðinu.“ 

Átak í innviðaframkvæmdum gefið góða raun

Þá segir Jóhanna Klara að fyrrnefnt átak stjórnvalda um að setja aukið púður í opinberar innviðaframkvæmdir til að örva hagkerfið hafa skilað tilætluðum árangri. „Þetta átak stjórnvalda skilaði sér og hefur gefið góða raun. Þegar það fór af stað var það fljótt að skila árangri. Það má klárlega hrósa stjórnvöldum fyrir að hafa ráðist í þetta átak. Í sögulegu samhengi hefur byggingariðnaðurinn fyrstur fengið að finna fyrir því þegar kreppir að. Það var því alveg ljóst þegar Covid skall á að það var mikil þörf á úrræðum sem sneru beint að byggingariðnaðinum, svo iðnaðurinn færi ekki í algjört frost.“ 

Þarf að vera stöðug uppbygging íbúðahúsnæðis

Aðspurð segir Jóhanna Klara rót vandans á íbúðamarkaði ekki liggja í einu tilteknu atriði, heldur sé það samansafn margra þátta. „Heilt yfir hefur húsnæðismarkaðurinn sem málaflokkur verið á alltof mörgum höndum í stjórnkerfinu, sem bjó til skort á að einhver axlaði raunverulega ábyrgð á málaflokknum. Ríkið hefur ekki fyrr en nýverið – er sérstakt innviðaráðuneyti var sett á fót – sett það í hendur eins aðila að vera ábyrgur fyrir því að mynda stefnu í íbúðauppbyggingu.“ Jóhanna segir ábyrgðarskortinn hafa lýst sér svo að ríkið hafi sett reglurnar en þó láðst að vera með yfirsýn yfir íbúðamarkaðinn. Svo hafi sveitarfélögin verið hvert í sínu horni að skipuleggja íbúðauppbyggingu. Það gefi augaleið að slíkt sé ekki vænlegt til árangurs. „Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur sagt að það þurfi að byggja u.þ.b. 3.500 íbúðir á ári að jafnaði til þess að mæta íbúðaþörfinni, sem er bæði uppsöfnuð og myndast jafn óðum við fjölgun landsmanna. Þessar endalausu upp- og niðursveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn um langa hríð eru ekki boðlegar. Það gengur ekki að við séum alltaf að fara í gegnum nokkurra ára frost áður en farið er af stað í stórtæk uppbyggingarverkefni, því þá er skaðinn þegar skeður. Við verðum að finna leiðir, með samstarfi ríkis og sveitarfélaga, til þess að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Stöðugleiki næst fram með því að stuðla að stöðugri uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Svo þetta náist fram þarf betri yfirsýn yfir málaflokkinn og meira samtal milli þessara aðila.“ 

Horfir til betri vegar með tölfræðiupplýsingar um húsnæðis- og byggingamarkaðinn 

Að sögn Jóhönnu stóð lengi vel skortur á tölfræðilegum upplýsingum um húsnæðis- og byggingarmarkaðinn iðnaðinum fyrir þrifum. Það horfi þó til betri vegar hvað þetta varðar. „Frá árinu 2017 hefur SI gripið til þess ráðs að senda starfsmann á okkar vegum á rúntinn um höfuðborgarsvæðið til að telja fjölda íbúða sem er í byggingu. Önnur gögn um þetta sem lágu fyrir voru einfaldlega ekki verið nógu góð. Þetta er þó allt saman á réttri leið og ber að hrósa HMS fyrir þeirra aðkomu en þau hafa átt öfluga innkomu og ætla að taka tölfræðiupplýsingar tengdar húsnæðis- og byggingarmarkaðnum föstum tökum. Síðustu tvær íbúðatalningar höfum við unnið í samstarfi við HMS. Þau hafa verið að þróa svokallaða mannvirkjaskrá og eru einnig að þróa gagnagrunn í kringum húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. Við trúum því að það styttist í að við getum farið að afhenda HMS keflið við íbúðatalninguna. Það er því verið að þróa tækin og tólin, og það sem helst vantar upp á núna er þetta aukna samstarf milli ríkis og sveitarfélaga sem ég kom inn á áðan.“ 

Þarf að tryggja stöðugleika bæði fyrir almenning og byggingariðnaðinn

Þá bendir Jóhann Klara á að SI hafi kallað eftir því að sveitarfélögin séu duglegri að miðla upplýsingum um fjölda íbúða sem skila sér inn á markaðinn á næstu mánuðum, í stað þess að einblína á hve margar íbúðir muni skila sér út á markaðinn að nokkrum árum liðnum. „Í svona mikilvægum málaflokki liggur það alveg ljóst fyrir að við getum ekki verið í pólitískum skotgröfum um hvað sé að koma inn á markað. Við þurfum að tryggja að það sé stöðugleiki, bæði fyrir almenning í landinu sem og byggingariðnaðinn því það er mjög vont að vinna í umhverfi þar sem ríkir svona mikil óvissa.“ 

Þarf aukið fjármagn til að taka við fleiri nemendum í iðnnám

Í greininni kemur fram að önnur áskorun sem byggingariðnaðurinn hefur staðið frammi fyrir sé skortur á iðnmenntuðu fólki. Fyrir tveimur árum síðan fóru allir starfs- og tæknimenntaskólar landsins, í samstarfi við SI, Samband íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytið, af stað í kynningarátakið „Fyrir mig“. Var markmið þess að vekja athygli á starfs- og tækninámi og þeim tækifærum sem iðnnám býður upp á. Jóhanna Klara segir átakið hafa heppnast mjög vel og ásókn í iðnnám stóraukist í kjölfarið. „Á svipuðum tíma og haldið var af stað í átakið var farið í gegnum grundvallarskipulagsbreytingar á iðnnáminu. Þetta tvennt skilaði gífurlegum árangri. Við sjáum að þessi ímyndarvandi sem lengi fylgdi iðnnámi virðist heyra sögunni til. Fólk virðist skilja betur í dag að fólk með iðnmenntun er mjög eftirsóttur starfskraftur og þessi menntun veitir aðgengi að mjög spennandi störfum. Það er alveg ljóst að það hefur ríkt skortur á iðnmenntuðu fólki um langa hríð.“ Þá segir að við aukna aðsókn hafi þó orðið til nýtt vandamál sem felist í því að skólakerfið geti ekki annað eftirspurn sem myndast hefur um að hefja iðnnám. „Það gengur ekki að nú, þegar talað er um að spýta eigi í lófana og byrja að byggja mun meira en gert hefur verið í sögulegu samhengi, sé verið að vísa frá um 700 umsækjendum frá inngöngu í Tækniskólann. Eftirspurn eftir því að fara í námið hefur stóraukist en þá verða stjórnvöld augljóslega að leggja áherslu á að hægt sé að taka við fleiri nemendum í iðnnám. Það þarf að setja aukið fjármagn þar sem eftirspurnin er, því það veitir svo sannarlega ekki af því að fá mun fleira iðnmenntað fólk inn í byggingargeirann.“

Verk og vit, mars 2022.

Verkogvit2022_forsida-blads