Fréttasafn24. maí 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Vonbrigði IGI með synjun menntamálaráðuneytisins

Stjórn Samtaka leikjaframleiðenda (IGI) lýsir vonbrigðum með þá ákvörðun menntamálaráðuneytisins að synja beiðni Keilis um að sett verði af stað ný námsbraut í tölvuleikjagerð næsta haust. Stjórn IGI telur mikilvægt að menntakerfið á Íslandi sé í takt við tækniþróun en gífurlegar tækniframfarir hafa átt sér stað á undanförnum árum. Þrátt fyrir allar þær miklu breytingar fá íslensk börn ekki markvissa kennslu í mörgum þeim greinum sem byggja fyrst og fremst á hugviti og skapandi hugsun. Sérstaðan við framtak Keilis vegna leikjabrautar byggir helst á þeirri staðreynd að engin braut er til af þessu tagi á framhaldsskólastigi á Íslandi, einungis örfáir valáfangar í nokkrum skólum. Hefur Keilir unnið hörðum höndum að gerð brautarinnar og komið á samstarfi við IGI, CCP og fleiri aðila til að veita faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins. Þrátt fyrir þann undirbúning og þá staðreynd að fjármagn er til staðar fyrir náminu innan Keilis þá fær brautin ekki hljómgrunn í menntamálaráðuneytinu. IGI og CCP hafa óskað eftir frekari rökstuðningi frá menntamálaráðuneytinu vegna synjunarinnar.

Vignir Örn Guðmundsson, formaður IGI, segir gerð tölvuleikja þverfaglegt og skapandi viðfangsefni þar sem meðal annars er hægt að kenna listsköpun, vöruhönnun, gagnagreiningu, gerð viðskiptalíkana, forritun og aðrar raungreinar við gerð tölvuleikja. „Við eigum að fagna nýsköpun og framtakssemi innan menntakerfisins. Við eigum að hvetja kennara og stjórnendur í skólakerfinu til að finna leiðir sem koma til móts við vaxandi þarfir nútímasamfélags. Leikjaiðnaður gengur ekki á auðlindir og ofnotar enga innviði. Tekjur af leikjaiðnaði eru nánast eingöngu í formi útflutnings og störf í leikjaiðnaði eru eftirsótt og vel borguð. Við viljum að börnin okkar verði leiðandi í fjórðu iðnbyltingunni sem tækniframfarir eru nú að ýta af stað. Það skiptir máli að þau skapi sjálf en séu ekki bara neytendur tækninnar. Nýstárleg framtök af því tagi sem námsbraut í tölvuleikjagerð er getur bæði misheppnast og heppnast. Ef við ætlum einungis að styðja við það sem engar líkur eru á að mistakist þá verður lítil framþróun. Við þurfum að þora því ávinningurinn af slíku hugarfari mun skila sér í fjölbreyttara atvinnulífi.“