Fréttasafn



6. jan. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Vöxtur framtíðar byggir á hugviti

Í núverandi aðstæðum er brýnt að huga að langtímastefnumótun - heildstæðri atvinnustefnu - sem getur lagt grunninn að betri lífskjörum til langrar framtíðar. Þar beinist kastljósið ekki síst að hugverkaiðnaði. Auðlindadrifin starfsemi er mikilvæg og verður það áfram, en vöxtur framtíðarinnar liggur í frekari uppbyggingu atvinnustarfsemi sem byggir á hugvitinu. Þetta kemur meðal annars fram í viðtali Magnúsar Halldórssonar við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, í Kjarnanum. Hún segir íslenska hagkerfið nú standa á tímamótum, eftir mikla uppgangstíma í hagkerfinu á árunum 2011 og allt fram á árið 2019, þá bendi flestir mælikvarðar til þess að nú sé verulega farið að hægja á hjólum atvinnulífsins. „Tilviljun mun ekki ráða því hvernig okkur vegnar. Við erum í samkeppni við önnur ríki og svæði í heiminum um hálaunastörf sem byggja á hugviti. Þrátt fyrir að það sé mikill kraftur í nýsköpun á Íslandi, þá verðum við líka að þora að spyrja gagnrýnna spurninga og gera betur.“ Hún segir að hugvitsdrifin starfsemi verði ekki byggð upp á einni nóttu þannig að hún geti orðið enn meiri kjölfesta í atvinnulífinu en að við höfum ekki val um hvort við leggjum meira á okkur til að styrkja grunn hugvitsgreina. „Það er nauðsynlegt að gera þetta. Menntakerfið er miðpunkturinn í þessari vinnu.“

Þarf fleiri fyrirtæki eins og Marel og Össur

Í viðtalinu segir Sigríður að það hafi tekist vel að stjórnvöld hafi – þvert á ráðuneyti – haft það sem leiðarljós að efla nýsköpun í atvinnulífinu og í menntakerfinu í takt við stjórnarsáttmálann. Til marks um að verið sé að taka „næsta skref” í því að byggja upp gott umhverfi fyrir nýsköpun í víðum skilningi sé nýframkomin nýsköpunarstefna. En betur megi ef duga skuli. Hún bendir á, að of fá alþjóðleg íslensk fyrirtæki hafi náð þeirri stærð sem þurfi til að nægilega mörg störf skapist í hugvitsdrifnum iðnaði og atvinnustarfsemi. Þó mörg góð alþjóðleg fyrirtæki séu á landinu, þá þurfi meira til. Þá kemur fram að Marel sé orðið að alþjóðlegu stórfyrirtæki með sex þúsund starfsmenn, en vöxturinn sé mestur utan Íslands. Fyrirtækið nálgist nú fertugsaldurinn, og Össur - hitt flaggskipið í íslenskum hugvitsgeira og iðnaði – verði 50 ára árið 2022. Sigríður segir í viðtalinu að það sé kominn tími á, að það verði til enn fleiri fyrirtæki eins og Marel og Össur, og það eigi að vera kappsmál að styrkja og bæta rekstrarumhverfið svo það geti gerst. Hljóð og mynd verði að fara saman í þessu. Heildstæð stefna, þar sem einblínt sé á alla keðjuna í uppbyggingu samkeppnishæfninnar, er það sem þurfi. Langtímasýnin verði að vera skýr á að skapa störf sem byggi á hugvitinu og virkjun þess. 

Á vef Kjarnans er hægt að lesa viðtalið við Sigríði í heild sinni, 5. janúar 2020.