Vöxtur í atvinnuvegafjárfestingu hefur snúist í samdrátt
Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, í Fréttablaðinu í dag um samdrátt í útlánum bankanna og segir hann það birtast í minni fjárfestingu og fækkun starfa, vöxtur í atvinnuvegafjárfestingu hafi snúist í samdrátt. Ingólfur segir að hjá félagsmönnum Samtaka iðnaðarins birtist umrædd þróun með tvennum hætti. „Annars vegar verða fjárfestingar í framleiðslugetu, til að mynda í framleiðsluiðnaði eða hugverkaiðnaði, minni sem kemur niður á verðmætasköpun þessara fyrirtækja. Hins vegar sjáum við þetta líka í umsvifum þeirra fyrirtækja sem starfa á sviði fjárfestingar, svo sem í byggingageiranum, þar sem samdráttar gætir nú. Vöxtur í atvinnuvegafjárfestingum hefur snúist í umtalsverðan samdrátt en íbúðafjárfestingin hefur hins vegar haldist á floti, enn sem komið er, en merki eru þar um samdrátt á fyrstu byggingarstigum.“
Ríkið auki útgjöld til innviðauppbyggingar og létti álögum af fyrirtækjum
Ingólfur segir að bankarnir séu að einhverju leyti að bregðast við breyttu efnahagsumhverfi. Bankaskattur, hertar eiginfjárkröfur og fyrirhuguð hækkun á sérstökum sveiflujöfnunarauka nú í febrúar bæti ekki úr skák. Verkefni hagstjórnarinnar hafi á rétt um ári snúist úr því að draga úr þenslu yfir í að milda efnahagssamdráttinn og byggja undir fjölgun starfa og aukna verðmætasköpun. „Ef litið er til þáttar ríkisins í hagstjórninni má segja að viðbrögð þess ættu að vera að auka eftirspurn í hagkerfinu. Nú er tækifæri fyrir ríkið til þess að lyfta fjárfestingar- og eftirspurnarstigi í hagkerfinu með auknum útgjöldum til innviðauppbyggingar og létta álögum af fyrirtækjum. Skuldastaða ríkisins er góð og býður upp á að þessu tæki hagstjórnarinnar verði beitt með virkum hætti til þess að vinna á móti niðursveif lunni og undirbyggja í leiðinni hagvöxt litið til lengri tíma. Að okkar mati hefur ekki verið nóg gert í þeim efnum.“
Þörf á frekari lækkun stýrivaxta
Í fréttinni segir Ingólfur að þáttur Seðlabankans hafi falist í því að lækka stýrivexti og beita sér fyrir því að þau lán sem séu í boði séu á betri kjörum til þess að örva fjárfestingu og eftirspurn. „Frekari lækkun stýrivaxta er þörf að okkar mati. Einnig þarf bankinn að tryggja að framboð fjármagns til fjárfestinga sé nægt en stjórntæki bankans á borð við sérstakan sveiflujafnaðarauka hefur áhrif á útlánagetu bankanna.“
Fréttablaðið, 23. janúar 2020.