Vöxtur í iðnaði greiðir leið að erlendum lánamörkuðum
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P sendi frá sér tilkynningu um miðjan maí þar sem fyrirtækið staðfesti A/A-1 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs en breytti horfum í jákvæðar. Að mati Samtaka iðnaðarins er breyting fyrirtækisins á horfum jákvætt skref. Í rökum fyrir ákvörðun fyrirtækisins kom fram að það gæti hækkað lánshæfiseinkunnirnar ef S&P teldi að geta landsins til þess að standa af sér ytri áföll hefði batnað. Það gæti gerst vegna meiri útflutningsvaxtar og aukinni fjölbreytni útflutnings og þar með lægri hreinni erlendra skulda og minni sveiflna í viðskiptakjörum.
Að mati Samtaka iðnaðarins er mjög mikilvægt að styrkja lánshæfismat íslenska ríkisins. Skiptir það ekki bara máli varðandi aðgengi innlendar aðila að erlendum fjármálamörkuðum og þeim lánskjörum þeim þeim stendur til boði þar. Fjármálakerfið og aðrar atvinnugreinar á borð við iðnaðinn munu njóta góðs af því. Í þessu sambandi er sá kröftugi vöxtur sem er framundan í iðnaði afar mikilvægur fyrir þjóðarbúið. Fjölmörg tækifæri til vaxtar hagkerfisins eru í íslenskum iðnaði og eru áform innan greinarinnar um verulega aukningu í útflutningi.
Útflutningstekjur iðnaðarins hafa verið í örum vexti undanfarið. Vægi greinarinnar í heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins var 44% á síðasta ár. Hugverkaiðnaður hefur verið hratt vaxandi grein í útflutningi og skilaði greinin í fyrra 239 mö.kr. í útflutningstekjur sem er nær fimmföldun frá árinu 2008. Vægi greinarinnar í útflutningi hagkerfisins var 14% í fyrra.
Samkvæmt könnun SI meðal nokkurra fyrirtækja í hugverkaiðnaði fyrr á þessu ári munu útflutningstekjur greinarinnar þrefaldast fram til ársins 2027 og verða þá 700 ma.kr. Útflutningstekjur hagkerfisins í heild munu aukast um nær fjórðung við þetta. Áhrif þessa á hagkerfið verða veruleg en þetta mun auka verðmætasköpun, fjölga vel launuðum störfum, auka fjölbreytni útflutnings og breyta samsetningu útflutningstekna yfir í að verða meira hugvitsdrifin. Mun vöxtur iðnaðarinsis þannig skila sér í sterkara lánshæfismati, bættu aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum og betri lánskjörum. Ef af þessum áformum verður munum við sjá það í meiri hagvexti á næstu árum en nú er reiknað með í hagvaxtarspám. Við gætum jafnvel séð verulega aukinn hagvöxt ef vel tekst til.
Til þess að tækifærin í iðnaðinum séu nýtt til aukinnar vermætasköpunar þarf umbætur í menntamálum, hvata til fjárfestinga í nýsköpun, innviðauppbyggingu og einfalt og skilvirkt regluverk og starfsumhverfi fyrirtækja. Tryggja þarf aukið framboð af grænni orku til fullra orkuskipta og uppbyggingar í iðnaði um land allt, fjölga þarf iðn-, tækni- og verkmenntuðu starfsfólki, greiða götu framkvæmda og setja kraft í innviðafjárfestingu, ekki síst í samgöngum, húsnæði og orkuskiptum.
Morgunblaðið, 19. maí 2023.