Fréttasafn



18. jún. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Vöxtur í íslenskum framleiðsluiðnaði

Í ViðskiptaMogganum er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um vöxt sem tekinn er við af samdrætti í íslenskum framleiðsluiðnaði en velta í greininni er að aukast eftir að hafa dregist saman allt frá árinu 2019. „Þetta er m.a. afleiðing vaxandi spurnar eftir iðnaðarvörum á innlendum og erlendum mörkuðum.“ 

Í ViðskiptaMogganum segir Ingólfur að vöxtur greinarinnar skipti miklu máli fyrir viðsnúning hagkerfisins. „Framleiðsluiðnaðurinn er stór grein í íslensku efnahagslífi en á síðasta ári skapaði hún um 7% landsframleiðslunnar sem er um 677 milljarðar króna. Í greininni störfuðu í fyrra 16,6 þúsund manns að jafnaði en það er um 8% allra starfandi í landinu.“ 

Í fréttinni kemur fram að vöxt í innlendri eftirspurn megi meðal annars sjá í matvælaiðnaði en samdráttur hafi verið í veltu þess hluta framleiðsluiðnaðarins nær allt síðastliðið ár. „Einnig sjáum við nú vöxt í útflutningstekjum af iðnaðarvörum. Sú þróun skiptir miklu máli en greinin skapaði í fyrra rétt um 299 milljarða króna eða 48% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins af útflutningi vöru. Vöxturinn sem við sjáum er bæði í rótgrónum fyrirtækjum og einnig nýjum.“ 

Hækkun á verði hrávara og flutninga

Þegar Ingólfur er spurður um helstu áskoranir segir hann að þær séu talsverðar í efnahagsumhverfi fyrirtækjanna um þessar mundir. Þar megi nefna talsverða hækkun á verði hrávöru og flutninga undanfarna mánuði ásamt ýmsum töfum sem hafi verið í afhendingu á aðföngum til framleiðslu. „Hrávöruverð án orkuverðs hefur hækkað um 51% á síðustu 12 mánuðum og stendur nú í hæsta gildi sínu í ríflega áratug eða síðan í upphafi árs 2011. Hrávörur sem notaðar eru til matvælagerðar á borð við korn, olíur og sykur hafa hækkað mikið. Þá hefur járn, ál, tin, kopar og aðrir málmar hækkað talsvert ásamt gúmmíi og efni til plastgerðar svo fleiri dæmi séu tekin. Þetta hefur allt haft talsverð áhrif á framleiðsluiðnaðinn bæði hér á landi og erlendis en afleiðingarnar finna neytendur í hækkuðu vöruverði bæði á innlendri og innfluttri framleiðslu.“ 

Launahækkanir og hátt vaxtastig

Þá segir Ingólfur aðrar áskoranir einnig vera fyrir hendi eins og miklar innlendar launahækkanir. „Þær hafa verið langt umfram það sem hefur verið hjá erlendum keppinautum. Það hefur sérstaklega bitnað á fyrirtækjum í greininni þar sem launahlutfallið er hátt.“ Einnig bendir Ingólfur á að vextir hafi verið sögulega lágir undanfarið og það hafi hjálpað fyrirtækjum og heimilum að takast á við niðursveifluna. Þetta sé hins vegar að breytast. „Fyrirtæki sem eru að fjármagna sig á innlendum markaði eru nú að horfa á hækkandi grunnvexti lána vegna vaxtahækkunar Seðlabankans auk talsverðs álags ofan á grunnvexti af hálfu bankanna. Innlent vaxtastig er hátt í alþjóðlegum samanburði þó að á Íslandi sé það sögulega lágt.“ 

Hækkun á gengi krónunnar veikir samkeppnisstöðu

Einnig nefnir Ingólfur í frétt ViðskiptaMoggans að gengi krónunnar hafi nú tekið að hækka sem veiki samkeppnisstöðu innlendra framleiðslufyrirtækja gagnvart erlendum, en krónan hefur styrkst um ríflega 5% frá áramótum. „Í því samhengi skiptir máli að þó raungengi krónunnar hafi lækkað í Covid þá stóð raungengið mjög hátt fyrir niðursveifluna og fór sögulega aldrei langt niður í niðursveiflunni. Það er því að hækka frá frekar hárri stöðu m.v. hvar hagkerfið er statt í hagsveiflunni. Fyrirtæki í þessari grein, líkt og öðrum, þurfa stöðugleika en stöðugleikinn er m.a. grundvöllur framleiðnivaxtar. Því eru miklar sveiflur í genginu óhentugar.“

ViðskiptaMogginn / mbl.is, 16. júní 2021. 


VidskiptaMogginn-16-06-2021