Fréttasafn2. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Vöxtur nýsköpunarfyrirtækja er dýr – en nauðsynlegur

ÁGÚSTA GUÐMUNDSDÓTTIR, doktor í örveru - og sameindaerfðafræði og fyrsta konan sem skipuð var prófessor við raunvísindadeild Háskóla Íslands, er annar af tveimur stofnendum líftæknifyrirtækisins Zymetech sem hefur unnið að þróun afurða úr hafinu og rannsóknum tengdum því. Fyrirtækið, sem var stofnað fyrir rúmlega tveimur áratugum, byggist á rannsóknum Ágústu og Jóns Braga Bjarnasonar heitins, prófessors í lífefnafræði, sem lést í byrjun árs 2011.

Nýsköpun er ögrandi og til að halda athygli og áhuga á viðfangsefninu þarf stöðugan innblástur.

 

Zymetech nýtir meltingarensím úr þorski sem í gegnum tíðina hefur að mestu leyti verið fargað. Þannig hefur fyrirtækið þróað vöru sem margfaldar virði þorsksins. Fyrirtækið framleiðir og hefur einkaleyfi á lækningavörunni PreCold gegn kvefi og ýmiss konar húðog snyrtivörum. Má þar nefna Penzim húðáburðinn. Þá vinnur fyrirtækið að þróun lækningavara gegn veirusýkingum, húðkvillum og til sáragræðinga. 

Ágústa segir regluverkið í kringum lækningavörur á borð við PreCold mjög flókið. „En markmiðið með reglunum er neytendavernd og staðfesting á virkni vörunnar. Ef fyrirtæki hafa þessa þætti ekki á hreinu er alþjóðleg markaðssetning lækningavöru ekki möguleg,“ útskýrir hún. Hún segir forsendu verðmætasköpunar með lækningavöru byggjast á því að hafa áhugaverða vöru og ekki síður sterkan bakgrunn í grunn - og klínískum rannsóknum auk einkaleyfa. „Það er líka mikilvægt að skráningar og gæðamál séu í lagi og að markaðsmöguleikar vörunnar séu góðir.“ 

Dýrt og flókið regluverk 

Regluverkið er mismunandi á milli landa sem flækir málin að einhverju leyti. „Evrópureglugerðin er hins vegar frumforsendan fyrir markaðssetningu lækningavara í flestum Evrópulöndum. Nokkur þeirra eins og til dæmis Þýskaland gera kröfur umfram Evrópureglugerðina. Síðan hafa Bandaríkin, Kanada, Kína og Japan hvert sína reglugerð en auðvitað nýtist sú vinna sem lagt er í til að uppfylla Evrópureglugerðina að stórum hluta.“

Þannig er allt umstang í kringum skráningar og leyfi bæði dýr og tímafrekur hluti af því að koma lækningavörum á alþjóðamarkað. „Skráningarnar gera kröfur um klínískar rannsóknir til að staðfesta virkni og öryggi vörunnar. Nokkrar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar fyrir okkur í Svíþjóð, Bretandi og Þýskalandi. Á annað þúsund manns hafa tekið þátt í þeim rannsóknunum,“ segir Ágústa, en framundan er umtalsverður vöxtur hjá fyrirtækinu og stefnan er sett á nýja markaði. 

AgustaZymitech_806A1463

Nýsköpun er lykillinn 

Zymetech starfar þegar á mörgum mörkuðum í Evrópu og nokkrum í Asíu og í Ástralíu. Fyrirtækið gerði nýlega sölu - og dreifingarsamninga við stór lyfjafyrirtæki í Kína og í Japan og eru sem stendur í viðræðum við fleiri. „Þetta kallar á stóraukna framleiðslu ensíma úr þorski hjá Zymetech á Íslandi og fjölgun starfsmanna. Við erum að sjálfsögðu í stöðugri nýsköpunarvinnu og rannsóknum varðandi framleiðsluna og vörurnar okkar og erum að undirbúa nýjar kynslóðir af lækningavörum. Við höfum þurft að halda að okkur höndum varðandi markaðssetningu snyrtivaranna á meðan skráningarvinna við lækningavörurnar hefur staðið yfir,“ segir Ágústa en nú loks stendur yfir undirbúningur fyrir alþjóðlega markaðssetningu á snyrtivörum félagsins. „Lyfja - og líftæknimarkaðurinn í heiminum er mjög stór og gerir miklar kröfur um nýjungar. Nýsköpun er því lykillinn að velgengni á þessum krefjandi mörkuðum.“ 

Við erum að sjálfsögðu í stöðugri nýsköpunarvinnu og rannsóknum varðandi framleiðsluna og vörurnar okkar og erum að undirbúa nýjar kynslóðir af lækningavörum.

Sameining tveggja fyrirtækja skapaði tækifæri 

Árið 2016 sameinaðist Zymetech sænska líftæknifyrirtækinu Enzymatica í Svíþjóð eftir áratugasamstarf fyrirtækjanna. Með sameiningunni varð til nauðsynleg þekking til að koma lækningavörum á alþjóðamarkað. Enzymatica var að auki skráð á First North Nasdaq markaðinn í Stokkhólmi sem veitti fyrirtækjunum góðan aðgang að fjármagni til vaxtar. Í dag starfa 20 manns hjá Zymetech á Íslandi og Enzymatica í Svíþjóð. „Við gerum ráð fyrir umtalsverðri fjölgun starfsmanna á næstu árum,“ segir Ágústa. 

Rannsókna - og þróunardeild fyrirtækjanna, hluti klínískra rannsókna, gæðamála auk ensímframleiðslu úr þorskslógi fer fram hjá Zymetech. Enzymatica sér um markaðssetningu, viðskiptaþróun, skráningar og reglugerðir og hefur umsjón með stærri klínískum rannsóknum. „Rétt er að benda á að vísindaþekkingin sem aflað er með rannsóknum og þróun hjá Zymetech er nauðsynleg fyrir bæði stig nýsköpunar, það er fyrri og síðari stig. Það koma upp endalausar spurningar bæði við skráningu og markaðssetningu sem við þurfum að geta svarað. Bæði fyrirtækin útvista síðan ákveðnum verkefnum til fyrirtækja sem hafa sérþekkingu á viðkomandi sviðum. Við værum mun fleiri ef allt starf sem tengist fyrirtækjunum væri innanhúss,“ segir Ágústa.

Ég held að við eigum að vera óhrædd við að sækja annað með þá þætti sem okkur vantar í nýsköpunarumhverfið til að komast alla leið. Aðalatriðið er jú að ná árangri.

AgustaZymitech_806A1517

Þarf að nálgast hlutina með opnum hug 

Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2015 sem Ágústa veitti viðtöku. Þau verðlaun eru veitt til fyrirtækja sem þykja skara fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar - og nýsköpunarstarfi og náð hafa árangri á markaði. Ágústa segir nýsköpun ekki bara mikilvæga, heldur nauðsynlega fyrir efnahagslífið og samfélagið. „Ég held að í dag dragi enginn í efa mikilvægi nýsköpunar. Við þurfum stöðugt að aðlaga okkur að hröðum breytingum og nýjum aðstæðum. Þetta kallar á það að fyrirtæki og stofnanir nálgist viðfangsefni með skapandi hugsun og opnum hug. Nýsköpun er ögrandi og til að halda athygli og áhuga á viðfangsefninu þarf stöðugan innblástur. Hjá okkur hefur nýsköpunarstarfið meðal annars skilað sér í nýjum uppgötvunum, einkaleyfum og vörum auk mikillar hagræðingar og hagkvæmni í ensímframleiðslunni. Allir þessir þættir veita okkur samkeppnisforskot á markaði,“ útskýrir hún og segir reynslu sína af umhverfi frumkvöðla hér á landi góða, á fyrri stigum nýsköpunar.

„Rannsóknastyrkir hafa vaxið umtalsvert á undanförnum árum en þeir eru lykilþáttur í uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja á fyrri stigum. Þannig voru Tækniþróunarsjóður og AVS rannsóknasjóðurinn okkur algerlega nauðsynlegir til að halda sjó. Mér finnst að við getum verið nokkuð ánægð með okkar árangur á fyrri stigum nýsköpunar. Sænskir ráðgjafar um nýsköpun sem við leituðum til á sínum tíma hvöttu okkur til að leggja áherslu á það sem við værum best í, það er rannsóknir, þróun og ensímframleiðsla. Mikilvægi fyrstu stiga nýsköpunar verður ekki dregið í efa því að þekkingin sem aflað er með vísindarannsóknum er nauðsynleg á öllum stigum ferilsins. Þetta kemur best fram við skráningar og markaðssetningu þegar svara þarf ótal spurningum sem vakna hjá viðskiptavinum og stofnunum.“ 

Oft nauðsynlegt að leita út fyrir landsteinana 

Vaxtarfasinn sé hins vegar langdýrasti hluti þess að koma nýsköpunarfyrirtæki á koppinn. „Þá er oft nauðsynlegt að leita að erlendu fjármagni. Ég held að svo verði áfram vegna þess hversu mikla peninga þarf til. Í okkar tilviki fól þessi hluti í sér skráningar og gæðamál, klínískar rannsóknir og markaðssetningu.“

Ágústa segir að það sem vanti fyrst og fremst í umhverfið á Íslandi sé aðgengi að fjármagni fyrir vöxt og hagnað. „Mér líst vel á hugmyndir sem hafa verið uppi hjá ráðamönnum um að tengjast norrænum fjárfestingarsjóðum eða öðrum erlendum aðilum til að auka möguleika okkar á að fara alla leið í nýsköpunarferlinu. Ég er mjög ánægð með þá leið sem við fórum hjá Zymetech að tengjast sænskum aðilum. Sameiningin var beggja hagur. Enzymatica hefur þekkingu og reynslu sem við höfum ekki og öfugt. Með sameiningunni fengum við gott aðgengi að fjármagni til vaxtar vegna skráningar okkar á First North Nasdaq markaðinn í Stokkhólmi. Svíar eru mjög framarlega í nýsköpun og miklir fagmenn í öllu ferlinu. Þeir hvetja mjög til stofnunar nýsköpunarfyrirtækja og skráningar þeirra á markað jafnvel þótt þau séu lítil og fámenn. Skráning á markaðinn veitir möguleika á aðgengi að fjármagni jafnframt því að auka aðhald og gagnsæi í fyrirtækjarekstri. Ég hef áhuga á að sambærilegt hvatningarátak verði gert hérlendis eins og gert var í Svíþjóð fyrir nokkrum árum,“ segir hún. 

„Íslendingar eru í eðli sínu framtakssamir, frjóir í hugsun og skapandi en sumir mikla fyrir sér stofnun fyrirtækis. Ég held að við eigum að vera óhrædd við að sækja annað með þá þætti sem okkur vantar í nýsköpunarumhverfið til að komast alla leið. Aðalatriðið er jú að ná árangri,“ segir Ágústa að lokum.

Einkaleyfin skipta höfuðmáli 

Verðmæti líftæknifyrirtækja er meðal annars metið út frá einkaleyfum. Nýlega fékk Zymetech samþykkt nýtt einkaleyfi fyrir þorskaensímin í Evrópu og alþjóðlegt PCT einkaleyfi er í ferli. „Þetta er mikið fagnaðarefni og fleiri einkaleyfi frá okkur eru í ferli. Styrkur okkar í rannsóknum kemur sér afar vel við samningu einkaleyfa. Við höfum sinnt grunn - og hagnýtum rannsóknum á þorskaensímunum síðan 1985 og erum enn að gera nýjar uppgötvanir á þeim vettvangi. Þessi vinna leiðir og hvetur til nýrra einkaleyfa og afurða fyrir markaðinn,“ segir Ágústa.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_