Fréttasafn



12. feb. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Nýsköpun

Vöxtur tækni- og hugverkaiðnaðar krefst sérhæfðs mannauðs

Mikil vaxtartækifæri eru enn fyrir hendi í tækni- og hugverkaiðnaði en áframhaldandi vöxtur í greininni er óhugsandi nema ríkt framboð af sérhæfðri þekkingu, reynslu og mannauði sé til staðar.  Þetta segja Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, og Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, í grein á Vísi. Þær segja að Samtök iðnaðarins hafi gefið nýverið út greiningu á mannauðs- og færniþörf sem leiði í ljós að enn sé veruleg vöntun á hæfu starfsfólki til starfa í tækni- og hugverkaiðnaði. Þörfin muni aðeins fara vaxandi á næstu árum.  

Þá segja þær að tækni- og hugverkaiðnaður hafi verið í örum vexti undanfarin ár og hafi nú fest sig í sessi sem fjórða stoð útflutnings þjóðarbúsins. Útflutningstekjur tækni- og hugverkaiðnaðar hafi þrefaldast á síðastliðnum áratug en þær námu líklega um 250-280 milljörðum á síðasta ári. Hafi þessi vöxtur afar jákvæð áhrif á hagkerfi Íslands sem hafi orðið fjölbreyttara, sterkara og sveigjanlegra.

Í niðurlagi greinarinnar segja þær að auðlind tækni- og hugverkaiðnaðar sé fyrst og fremst hugvit og nýsköpun sem grundvallist á rannsóknum og þróun.  SI hafi bent á það um árabil að fjárfesting í nýsköpun sé lykillinn að framleiðnivexti og framtíðarverðmætasköpun hagkerfisins. Auk þess sé áhersla á nýsköpun, þ.e.a.s. öflugt rannsókna- og þróunarstarf, forsenda þess að leysa fjölmargar samfélagslegar áskoranir, til að mynda í loftslagsmálum og heilbrigðisþjónustu. Ekkert gerist þó án þess að fólk með rétta færni finnist til starfa í þeirri fjölbreyttu flóru fyrirtækja sem mynda tækni- og hugverkaiðnað. Þær segja að því skipti sköpum að tryggja að íslenskt menntakerfi sé í takti við tímann og samræmist eftirspurn. Þar að auki þurfi Ísland að taka vel á móti erlendum sérfræðingum til landsins. Séu þessir þættir til staðar liggi fyrir að tækni- og hugverkaiðnaður muni vaxa og dafna til framtíðar, í þágu samfélagsins alls.   

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 12. febrúar 2024.