Fréttasafn



19. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Yfir 500 störf í húfi hjá álverinu í Straumsvík

Mikilvægt er að tryggja sjálfbæran rekstur álversins í Straumsvík til framtíðar. Þar eru störf yfir 500 starfsmanna í húfi og almennt greiða álver hærri laun en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, auk þess sem mikið er lagt upp úr menntun og þjálfun starfsmanna, m.a. með stóriðjuskólum sem reknir eru hjá öllum álverunum, og öryggis- og umhverfismál eru kjarnastarfsemi. Þetta segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í grein sinni í ViðskiptaMogganum undir yfirskriftinni Iðnbylting, atvinna og lífskjarasókn. Hann segir að þegar álverið hafi verið rekið með hagnaði hafi það verið með hæstu skattgreiðendum á Íslandi og borgaði raunar hæstu skattprósentuna um aldamótin rétt áður en fjárfestingarsamningurinn féll úr gildi. „Vonandi tekst í þeim viðræðum sem fram undan eru að tryggja sjálfbæran rekstur ISAL, þannig að fyrirtækið komist aftur á réttan kjöl og þar verði áfram sköpuð verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú.“

Dregið úr sveiflum með fleiri stoðum 

Í grein Péturs segir að í nýlegri úttekt Samtaka iðnaðarins komi fram að frá því að orkuiðnaður fór að byggjast upp á Íslandi fyrir 50 árum hafi þjóðarframleiðsla á mann vaxið 50% meira hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum. Dregið hafi úr sveiflum að fá fleiri stoðir undir verðmætasköpunina en fiskinn. Það hafi komið bersýnilega í ljós þegar loks fundust not fyrir orkuframleiðslu Blönduvirkjunar við álframleiðslu, en hún hafi runnið ónýtt til sjávar framan af tíunda áratugnum, og eins þegar ISAL réðist í 60 milljarða fjárfestingarverkefni þegar mest lá við árin eftir bankahrunið.

Útflutningur álvera á Íslandi 230 milljarðar

Pétur segir að á fimmtíu árum hafa öflug álver skotið rótum hér á landi og í kringum þau dafnar gróskumikill klasi með hundruðum fyrirtækja. Útflutningur álvera á Íslandi hafi numið 230 milljörðum árið 2018 og þar af námu innlend útgjöld um 86 milljörðum. Út frá meðalverði Landsvirkjunar til iðnaðar megi áætla að álverin hafi keypt raforku fyrir um 40 milljarða, en kaup á innlendum vörum og þjónustu námu þess utan 23 milljörðum, laun og launatengd gjöld um 19 milljörðum og opinber gjöld 4 milljörðum. Þá vörðu þau hátt í 200 milljónum í samfélagsstyrki. Hann segir það því misskilning þegar talað sé um að sala á raforku til álvera jafngildi útflutningi á hreinni orku. Meirihluti innlends kostnaðar álveranna falli til utan raforkuverðs.

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni.