13 tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna
Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna hafa verið tilkynntar á vef RÚV en verðlaunin eru veitt árlega sem viðurkenning fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin verða veitt á Bessastöðum 5. nóvember og sýnt verður frá athöfninni á RÚV 6. nóvember.
Samtök iðnaðarins eru meðal samstarfsaðila verðlaunanna auk Embættis forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytis, innviðaráðuneytis, Félags um menntarannsóknir, Grunns – félags stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
Fyrir framúrskarandi skólastarf og menntaumbætur eru tilnefnd Árskóli á Sauðárkróki, Fellaskóli í Reykjavík og Listasafn Íslands. Tilnefningar fyrir framúrskarandi kennara eru Dóra Guðrún Wild, kennari við leikskólann Hlaðhamra í Mosfellsbæ, Guðrún Sigurðardóttir, kennari við leikskólann Gimli í Reykjanesbæ, Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ, og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, grunnskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar. Fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru tilnefnd þróunarverkefni í Háteigsskóla, þróunarverkefni í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ og sviðslistabraut við Menntaskólann á Akureyri. Tilnefningar fyrir framúrskarandi iðn- og verkmenntun eru Rafmennt, Verkmenntaskóli Austurlands og Þröstur Jóhannesson, kennari við Menntaskólann á Ísafirði.
Myndin hér fyrir ofan er frá afhendingu verðlaunanna á síðasta ári.
RÚV, 5. október 2024.