14-17 ma.kr. útflutningstekjur hafa tapast vegna raforkuskerðingar
Í nýrri greiningu SI kemur fram að stjórnendur fyrirtækja í orkusæknum iðnaði telja að 14-17 ma.kr. útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapast á fyrstu mánuðum þessa árs vegna skerðingar Landsvirkjunar á raforku en slakur vatnsbúskapur leiddi til þess að fyrirtækið gat ekki framleitt nægilega raforku. Áhrif á útflutningstekjur í ár verða enn meiri ef grípa þarf til skerðinga næsta vetur, eins og útlit er fyrir. Tapaðar útflutningstekjur vegna skerðinganna eru 3,7%-4,5% af útflutningstekjum orkusækins iðnaðar á síðasta ári. Ef miðað er við efri mörk matsins er það tæplega 5% af útflutningi sjávarafurða á síðasta ári og tæplega helmingur þess sem loðnuvertíðin skilaði í fyrra. Einnig samsvarar tapið tæplega 3% af tekjum af erlendum ferðamönnum á síðasta ári.
Í greiningunni kemur fram að mest sé tapið hjá álverunum en þar er það metið 9-10 ma.kr. Það er um 2,8%-3,1% af útflutningstekjum áliðnaðarins á síðastliðnu ári. Skerðingarnar hafa bein áhrif til lækkunar tekna en einnig óbein vegna áhrifa þeirra á viðskiptasamninga. Þessu til viðbótar fylgir skerðingunum aukinn kostnaður, m.a. vegna þess að skerðingarnar stytta líftíma fjárfestinga í kerjum. Tapaðar útflutningstekjur gagnavera eru metnar 3-5 ma.kr. Tapaðar útflutningstekjur annars orkusækins iðnaðar eru metnar 2 ma.kr.
Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.