Fréttasafn



11. júl. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

15% fjölgun launþega í byggingariðnaði milli ára

Launþegum hefur fjölgað mikið á milli ára hjá launagreiðendum í byggingariðnaði en í maí síðastliðnum voru 2.521 launagreiðendur og um 12.400 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 15% eða 1.600 í samanburði við maí í fyrra. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.  

Að jafnaði voru 17.113 launagreiðendur á Íslandi á 12 mánaða tímabili frá júní 2016 til maí 2017. Launagreiðendum fjölgaði um 4,5% eða 742 frá tímabilinu á undan. Á þessu 12 mánaða tímabili greiddu launagreiðendurnir að meðaltali um 183.600 einstaklingum laun sem er aukning um 8.600 eða 4,9% í samanburði við fyrra tímabil.

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI, segir tölurnar sýna að ríflega fimmtungur af nýjum störfum sem skapast hafa í hagkerfinu frá maí í fyrra til maí í ár séu í iðnaðinum. „Flest eru þessi störf í byggingariðnaði en einnig í framleiðslu ásamt tækni- og hugverkaiðnaði. Hlutfall iðnaðar í atvinnusköpuninni er álíka á þessu tímabili og það hefur verið að meðaltali í þessari uppsveiflu. Hátt hlutfall iðnaðar í atvinnusköpuninni sýnir að hlutur greinarinnar er mikill í hröðum vexti hagkerfisins og aukinni verðmætasköpun. Innlend eftirspurn er hratt vaxandi og njóta iðnfyrirtæki þess sem eru að þjónusta þann markað. Hátt gengi krónunnar gerir þeim iðnfyrirtækjum sem eru í mikilli erlendri samkeppni hins vegar erfitt fyrir um þessar mundir,“ segir Ingólfur.