Fréttasafn1. feb. 2016 Menntun

160 fyr­ir­tæki skrifa undir vinnustaðasáttmála

 Á málstofu SI „Þú færð pottþétt starf – atvinnurekendur axla ábyrgð á vinnustaðarnámi“ á Menntadegi atvinnulífsins talaði Dr. Elsa Eiríksdóttir um niðurstöður nýrra rannsókna sem benda til að erfiðleikar við að komast í vinnustaðarnám fæla marga frá iðnnámi á sama tíma og skortur er á fólki í flestum greinum. Að sögn Katrín­ar Dóru Þor­steins­dótt­ur, mennta­stjóra SI, völdu aðeins 14% grunn­skóla­nema starfs­mennt­un í fram­halds­skóla sl. haust og hef­ur það hlut­fall staðið í stað und­an­far­in ár þrátt fyr­ir að grunn­skóla­nem­um hafi fjölgað. Sér­stak­lega er mik­ill skort­ur á nem­um í húsa­smíði, einni stærstu iðngrein­inni. 

Sam­tök iðnaðar­ins hafa því blásið til her­ferðar sem er beint að for­ráðamönn­um barna og ung­linga. Þar er lögð áhersla á að þeir sem fari í iðnnám fái pottþétt starf, þeir fari í vinnustaðanám hjá spenn­andi fyr­ir­tæki og hljóti dýr­mæta starfs­reynslu og alþjóðlega viður­kennd rétt­indi auk þess sem iðnnám sé góður grunn­ur að fjöl­breyttu fram­halds­námi. Ill­ugi Gunn­ars­son mennta­málaráðherra hef­ur sagt að mik­il­vægt sé að kynna starfs­nám snemma því unga fólkið teng­ist ekki at­vinnu­grein­un­um eins mikið og áður. Grunn­skóla­nem­end­ur þurfi að hafa val um nám sem þeir þekki.   

Mennta­kerfið og at­vinnu­lífið eru sam­mála um að auka þurfi starfs­nám í öll­um grein­um og söfnuðu SI 160 fyr­ir­tækj­um á aðeins tveim­ur vik­um sem ætla að taka nema á samn­ing eða í vinnustaðanám. Guðrún Haf­steins­dótt­ir, formaður SI, af­henti Jóni B. Stef­áns­syni, skóla­meist­ara Tækni­skól­ans, form­leg­an sátt­mála þess efn­is að mál­stof­unni lok­inni.

Frétt um Menntadag atvinnulífsins
Frétt um Menntaverðlaun atvinnulífsins