3.255 íbúðir eru í smíðum samkvæmt nýrri talningu SI
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóra byggingariðnaðar á mannvirkjasviði SI, í kjölfar nýrrar talningar Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu. Ómar Friðriksson, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar:
Tæplega 300 fleiri íbúðir eru nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu en fyrir hálfu ári. Samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins (SI) á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu voru 3.255 íbúðir í byggingu í lok febrúar, sem er 10% aukning frá því seinast var talið í september á síðasta ári.
Áætlað hefur verið að 1.600 til 1.800 nýjar íbúðir þurfi að bætast við á hverju ári til að anna eftirspurninni og því til viðbótar þarf að mæta mikilli uppsafnaðri þörf á undanförnum árum fyrir íbúðir á markaðinum. Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði SI, bendir á að venjulega taki um tvö ár að byggja hverja íbúð þannig að ef helmingur þessara íbúða sem eru í byggingu koma á markað á hvoru ári um sig þá dugi það engan veginn til að mæta þessari eftirspurn. ,,Miðað við stöðuna í dag er spá okkar fram í tímann sú að það verði í fyrsta lagi eftir tvö ár sem fer að saxast á uppsafnaða þörf,“ segir hann.
Fjölgun íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu á seinustu misserum hefur fyrst og fremst verið í fjölbýli en þær eru 282 fleiri nú en í talningunni í september sl.
Sé litið á stöðuna í einstökum sveitarfélögum kemur hins vegar í ljós að færri íbúðir eru í dag í smíðum í Reykjavík en fyrir hálfu ári. Alls voru 1.228 íbúðir í byggingu í borginni í nýrri talningu SI en þær voru 1.266 í september. Í Kópavogi eru 644 íbúðir í byggingu um þessar mundir og hefur þeim aftur á móti fjölgað um 118 frá síðasta hausti. Í Garðabæ er einnig aukning og alls 602 íbúðir í byggingu, eða 126 fleiri íbúðir en voru í byggingu í september og í Mosfellsbæ er verið að smíða 470 íbúðir í dag en þær voru 388 fyrir hálfu ári. Í Hafnarfirði eru hins vegar færri íbúðir í byggingu eða 237 en þær voru 268 í september sl. 21 íbúð er í byggingu á Seltjarnarnesi en þær voru 34 í september.
Aðspurður segir Friðrik fækkunina í Reykjavík ekki þurfa að koma mjög á óvart í ljósi áherslu borgaryfirvalda á að 90% nýbygginga eigi sér stað á þéttbýlissvæðum borgarinnar en aðeins 10% í útjöðrunum. Nýbyggingar innan þéttbýlissvæðanna séu mun þyngri og erfiðari í framkvæmd m.a. vegna deiliskipulags og samþykkta sem því fylgir en þegar byggt er í úthverfum. ,,Þess vegna höfum við sagt að það þarf að vera jafnari skipting á uppbyggingu í úthverfum og á þéttingarsvæðum,“ segir hann.
Athygli vekur að íbúðum á höfuð- borgarsvæðinu sem eru í smíðum á fyrstu byggingarstigum fjölgar mun minna en íbúðum sem orðnar eru fokheldar eða eru lengra komnar. Friðrik segir sláandi tölur hafa komið í ljós í talningunni yfir byggingarlóðir fjölbýlishúsa þar sem eingöngu er kominn sökkull undir íbúðirnar. Þar á sér stað mikil fækkun eða alls um 21,3% frá því í september í fyrra. Þetta vekur ugg að sögn hans.
Sérbýlið vart komið í gang
Fjölgun íbúða í byggingu hefur eins og fyrr segir einkum verið í fjölbýli en sérbýlið er varla komið í gang að sögn Friðriks. 185 íbúðir í rað- og parhúsum eru í byggingu sem er 7% fækkun frá í september í fyrra og 123 einbýlishús eru í smíðum að því er fram kemur í talningartölum SI. Töluverður munur er þó á stöðu þessara mála eftir sveitarfélögum. Þannig voru 32 rað- og parhús í smíðum í Mosfellsbæ, 73 í Garðabæ og 34 í Reykjavík í febrúartalningunni. Í Mosfellsbæ voru að rísa 58 einbýlishús en aðeins 13 í Reykjavík svo dæmi séu nefnd.
Friðrik bendir á að á sama tíma og höfuðborgin leggi áherslu á þéttingu byggðar sem þrengir að einkabílnum sé vöxtur í nágrannasveitarfélögunum sem séu að búa sig undir þróunina næstu ár. Fyrstu kaupendurnir, unga fjölskyldufólkið, vilji fara þangað sem húsnæðið er ódýrara og það hafi efni á því í nágrannasveitarfélögum ,,og notar svo einkabílinn til að komast til höfuðborgarinnar. Þetta helst ekki alveg í hendur.“
Morgunblaðið, 22. mars 2017.