Fréttasafn



3. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

4.845 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu

Í byggingu eru nú 4.845 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins. Þetta eru 752 eða 18% fleiri íbúðir en voru í bygginu í mars síðastliðnum þ.e. þegar samtökin gerðu síðast talningu á íbúðum í byggingu á svæðinu. Íbúðir í byggingu eru nú 5,6% af heildarfjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu í upphafi þessa árs en var 4,7% í mars sl.  

Mynd1

 

Ofangreind aukning í íbúðum í byggingu er að mati SI að skila sér hægt inn á markaðinn í fullbúnum íbúðum. Í þessu sambandi vilja samtökin leggja áherslu á að skipulagsyfirvöld tryggi að byggt sé húsnæði sem mætir sem best þörfum samfélagsins en nokkuð hefur vantað upp á að svo sé. Þá leggja samtökin einnig áherslu á að kerfi skipulagsmála sé gert einfaldara og skilvirkara til að spara tíma og kostnað. Með því er hægt að bjóða ódýrari nýjar íbúðir. Ferli skipulagsmála þarf að gera hraðara og einfaldara og veita þarf hönnuðum svigrúm til hagkvæmari lausna. Auka þarf rafræna stjórnsýslu og einfalda byggingaeftirlit. Miða þarf umfang eftirlits við fyrirframgefna mælikvarða, t.d. út frá flokkun mannvirkja.

Til að tryggja sem best aukið gagnsæi og yfirsýn á byggingamarkaðinum þarf að mati SI að auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga í íbúðamálum. Með því móti má tryggja aukinn stöðugleika á markaðnum og að framboð fullbúinna íbúða mæti þörf samfélagsins á hverjum tíma.

Mynd2_1538552805819

Þegar horft er til stöðu í einstökum sveitarfélögum innan höfuðborgarsvæðisins kemur í ljós að 2.355 íbúðir eru í byggingu í Reykjavík og er það 4,5% af heildarfjölda íbúða í Reykjavík í lok árs 2017. Það hlutfall er undir meðaltali höfuðborgarsvæðisins sem er 5,6%. Hlutfallið er einungis lægra í Hafnarfirði þar sem 122 íbúðir eru í byggingu eða 1,2% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu og á Seltjarnarnesi en þar eru 15 íbúðir í byggingu sem er 0,9% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Hæst er hlutfallið í Mosfellsbæ þar sem 541 íbúðir eru í byggingu eða 15,1% af íbúðum í sveitarfélaginu. Næst kemur Garðabær þar sem 651 íbúð er í byggingu eða 11,7% af íbúðum á svæðinu og þar á eftir Kópavogur þar sem 1.161 íbúðir eru í byggingu eða 8,8% af íbúðum á svæðinu.

Mynd4

Hér er hægt að nálgast nýja íbúðatalningu SI.