Fréttasafn



1. júl. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

50 ár liðin frá því framleiðsla á áli hófst á Íslandi

Rio Tinto á Íslandi fagnar því í  dag að 50 ár eru liðin frá því að fyrsta kerið var ræst í álverinu ISAL í Straumsvík og framleiðsla áls hófst á Íslandi. Á þessum tíma hefur ÍSAL framleitt um 6,2 milljónir tonna af áli og umbreytt endurnýjanlegri íslenskri raforku í verðmætan málm sem á sér endalaust líf en ál er hægt að endurvinna aftur og aftur. Samtök iðnaðarins óska Rio Tinto á Íslandi til hamingju með tímamótin. 

RannveigRist_big_1561991773012Í Morgunblaðinu í dag er þess minnst að 50 ár eru liðin frá gangsetningu álversins og rætt við Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto á Íslandi, sem segir meðal annars að afmæli álframleiðslunnar sé ekki aðeins tímamót fyrir fyrirtækið heldur líka atvinnusögu Íslands. Álframleiðsla hafi orðið ein af undirstöðunum í efnahagslífinu. „Með álverinu í Straumsvík komu ýmsar nýjungar til landsins. Á myndum frá gangsetningunni má sjá menn með hjálma sem var fremur nýtt fyrir Íslendingum. Notkun þeirra á byggingarsvæðum var enda ekki orðin almenn eins og nú er. Það hefur eflt mjög tæknimenntun í landinu og þróun hennar að hafa möguleikann á að starfa hérna. Margir starfsmenn hafa hér kynnst tækni og síðan menntað sig á þeim sviðum. Frá upphafi var hér talsverður fjöldi tæknimenntaðra Íslendinga og frá árinu 1997 hafa Íslendingar séð alfarið um rekstur álversins.“

Í umfjöllun Morgunblaðsins er einnig vitnað til orða Ingólfs Bender, aðalhagfræðings SI, sem fjallaði á fundi Samtaka álframleiðenda um efnahagsleg áhrif álframleiðslu síðustu 50 ár en í máli hans kom fram að landsframleiðsla á mann hefði aukist úr 2,4 milljónum á núvirði í 7,9 milljónir á tímabilinu, eða um 229%. Hann sagði jafnframt að uppbygging áliðnaðar hefði verið mikilvægur liður í því að Ísland breyttist „úr vanþróuðu bændasamfélagi í iðnvætt ríki með góð efnahagsleg lífsgæði. 

Hér fyrir neðan má sjá auglýsingu sem Rio Tinto á Íslandi birti í dag.

Rio-Tinto-a-Islandi