Fréttasafn



19. jún. 2017 Almennar fréttir Menntun

648 nemendur útskrifaðir úr HR

648 nemendur brautskráðust frá Háskólanum í Reykjavík í Hörpu síðastliðinn laugardag og óska Samtök iðnaðarins þeim öllum til hamingju með áfangann. 417 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 229 úr meistaranámi og tveir nemendur útskrifuðust með doktorsgráðu. Í útskriftarhópnum voru 273 konur og 375 karlar. Um 3.600 nemendur stunduðu nám við skólann á síðasta skólaári.

Flestir luku námi frá frá viðskiptadeild háskólans, eða 229 nemendur, þar af rúmur helmingur, eða 117 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu. Frá tækni- og verkfræðideild háskólans útskrifuðust 199 nemendur, þar af 70 með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu. Lagadeild útskrifaði 71 nemanda, þar af 32 með meistaragráðu. Tölvunarfræðideild útskrifaði 149 nemendur, þar af 10 með meistaragráðu.

Í ávarpi sínu til útskriftarnema talaði Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, meðal annars um yfirstandandi tæknibyltingu sem muni gerbylta störfum, framleiðslu, þjónustu, viðskiptum og samfélagi með aukinni sjálfvirkni, gervigreind og sýndarveruleika. „Allt að helmingur þeirra starfa sem við þekkjum hér á landi í dag mun hverfa á næstu áratugum. Ef við erum ekki vel undirbúin, ef við erum ekki eins vel menntuð og nágrannalöndin, þá verðum við undir í samkeppninni,“ sagði Ari meðal annars í ræðu sinni.  Hann bætti við að engir væru betri en Íslendingar í að snúa blaðinu við á skömmum tíma og að það lægi skýrt fyrir hvað þyrfti að gera til að efla háskólastarf og bæta umhverfi fyrir nýsköpun. „Takist okkur að gera það fljótt og vel, þá mun samkeppnishæfni Íslands stóreflast og samfélag okkar njóta aukinna lífsgæða. Og það sem skiptir jafn vel enn meira máli, frábærir menntaðir einstaklingar eins og þeir sem útskrifast hér í dag munu finna sín bestu tækifæri á Íslandi.“

 

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Þau hlutu að þessu sinni: Diljá Ragnarsdóttir, BA í lögfræði; Tómas Aron Viggósson, BA í lögfræði; Aron Björn Bjarnason, BSc í fjármálaverkfræði; James Elías Sigurðarson, BSc í tölvunarstærðfræði og Sindri Freyr Gíslason, BSc í viðskiptafræði.

Vignir Guðmundsson, einn stofnanda Radiant Games, formaður Samtaka tölvuleikjaframleiðenda (IGI) og MSc í tölvunarfræði frá HR árið 2015, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar og Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir, BSc í hugbúnaðarverkfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.