Fréttasafn4. okt. 2022 Almennar fréttir Mannvirki

8.113 íbúðir í byggingu á öllu landinu

Framkvæmdir eru hafnar við 8.113 íbúðir á landinu öllu samanborið við 7.260 í talningunni í mars sl. og 6.001 íbúð í september í fyrra. Aukningin frá því á sama tíma í fyrra nemur 35,2%. Mikil aukning er á fjölda íbúða í byggingu á framvindustigi 1 þar sem íbúðum fjölgaði um rúmlega 39% frá síðustu talningu sem gefur til kynna að mikið af nýjum verkefnum fóru af stað á milli talninga. Þetta kemur fram í nýrri talningu HMS og SI á íbúðum í byggingu.  

Helstu niðurstöður talningarinnar eru: 

  • Í Reykjavík eru 2.433 íbúðir í byggingu en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eru þær 3.263 talsins, í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eru 1.516 íbúðir í byggingu og annars staðar á landsbyggðinni eru þær 980 talsins. Höfuðborgarsvæðið er því með 70,2% af öllum íbúðum í byggingu samanborið við 70,7% í mars síðastliðnum. 
  • Á landsbyggðinni hefur íbúðum í byggingu fjölgað um 268 íbúðir eða um 37,6% frá síðustu talningu í mars síðastliðnum. Ef borið er saman við talninguna í september fyrir ári síðan þá hefur íbúðum í byggingu á landsbyggðinni fjölgað um 367 íbúðir eða um 59,9%. 
  • Út frá talningunni áætla HMS og SI að 1.229 nýjar íbúðir komi á markað á landinu öllu það sem eftir er á þessu ári og 3.169 árið 2023. Þá gera HMS og SI ráð fyrir að 3.2406 af þeim íbúðum sem nú eru í byggingu verði fullbúnar árið 2024. 

Hér er hægt að nálgast greininguna. 

Greining