80% telja að það ætti að framleiða landbúnaðarvörur innanlands
Tæplega 80% landsmanna telja að það ætti að framleiða allar/flestar landbúnaðarvörur innanlands, 18% segja að það skipti sig ekki máli og einungis 3% segja að það ætti að flytja allar/flestar landbúnaðarvörur inn. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem var framkvæmd af Gallup fyrir Samtök fyrirtækja í landbúnaði, SAFL, og Bændasamtök Íslands, BÍ, og greint er frá á vef SAFL. Niðurstöðurnar sýna að 20% svarenda telji að það ætti að framleiða allar landbúnaðarvörur innanlands og 60% telji að framleiða ætti þær flestar innanlands.
Á vef SAFL kemur fram að á hverju ári framleiði íslenskir bændur um 30.000 tonn af kjöti, 13.000 tonn af grænmeti og 150 milljón lítra af mjólk. Framleiðslan fari fram á um 3.150 býlum hringinn í kringum landið og mikill fjöldi fólks komi að framleiðslu, vinnslu, flutningi og sölu og framreiðslu matvæla til neytenda. Til þess að landsmenn allir geti kosið íslenskar landbúnaðarvörur í sínum matarinnkaupum þurfi að auka innlenda framleiðslu með bættum stuðningi og betra starfsumhverfi fyrir greinina.
Á vef SAFL er hægt að nálgast frekari upplýsingar.