Fréttasafn



11. jún. 2019 Almennar fréttir Menntun

82 nemendur ljúka námi í Háskólagrunni HR

82 nemendur hafa lokið undirbúningsnámi fyrir háskóla í Háskólagrunni HR en brautskráning fór fram síðastliðinn föstudag. Það voru 62 nemendur sem brautskráðust úr Háskólagrunni HR frá frumgreinadeild háskólans. 18 nemendur brautskráðust af tækni- og verkfræðigrunni deildarinnar, 32 af laga- og viðskiptagrunni og 12 af tölvunarfræðigrunni. Til viðbótar luku 20 nemendur viðbótarprófi við stúdentspróf frá frumgreinadeild. 

Í fréttatilkynningu frá HR segir að æ stærri hópur nemenda með stúdentspróf sæki í að bæta við sig þekkingu í stærðfræði og raungreinum í frumgreinadeild HR. Samtals hafa 2.282 nemendur útskrifast með lokapróf frá frumgreinadeild HR. Mikill meirihluti útskrifaðra nemenda hefur sótt um akademískt nám við HR. Opið er fyrir umsóknir í Háskólagrunn HR fyrir næsta ár til 15. júní næstkomandi.

Við brautskráninguna hlaut Davíð Sæmundsson viðurkenningu Samtaka iðnaðarins fyrir bestan árangur í Háskólagrunni HR. Davíð hlaut jafnfram raungreinaverðlaun HR fyrir ágætan árangur í raungreinum, viðurkenningu Íslenska stærðfræðafélagsins fyrir ágætan árangur í stærðfræði, viðurkenningu Danska sendiráðsins fyrir ágætan árangur í dönsku og viðurkenningar fyrir ágætan árangur í íslensku og ensku í Háskólagrunni HR.