Fréttasafn



3. sep. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

9 milljónum klukkustunda er sóað í umferðartafir á ári

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá greiningu SI á bættri ljósastýringu þar sem kemur fram að 15% minnkun í umferðartöfum í höfuðborginni með ljósastýringu muni skila um 80 mö.kr. í ábata fyrir fyrirtæki og heimili á líftíma fjárfestingarinnar en stofnkostnaður framkvæmdarinnar sé 1,5 ma.kr. Þar er vísað í greininguna að áætla megi að um 9 milljónum klukkustunda verði sóað í umferðartafir innan höfuðborgarinnar á árinu 2019. „Þar er m.a. horft til niðurstaðna úr nýlegu umferðarlíkani VSÓ fyrir höfuðborgarsvæðið og umferðarmælinga Vegagerðarinnar. Sóaður tími veldur töluverðum umframkostnaði, en áætla má t.d. að fyrirtæki borgarinnar verji tæplega 10 mö.kr. í óþarfa launakostnað vegna þessa á árinu 2019 sem birtist í hærra verðlagi en ella og lægri framleiðni. Til viðbótar kemur aukinn kostnaður og skert lífsgæði þeirra sem ferðast í frítíma.“ Þá segir að í greiningunni komi fram ávinningur af breytingunum er áætlaður í 15% tímasparnað fyrir einkabíla, 50% minni biðtíma ökutækja í biðröðum og 20% meira flæði almenningssamgangna. 

Í frétt Morgunblaðsins er rætt við Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en flokkurinn leggur í dag fram tillögu um að borgarstjórn feli umhverfis- og skipulagssviði að undirbúa útboð vegna ljósastýringar og snjallvæðingar í umferðarstýringu. Eyþór segir í fréttinni að þetta sé „fljótvirkasta, ábatasamasta og nútímalegasta lausnin sem hægt er að fara í“ til að bæta samgöngur í höfuðborginni. 

Morgunblaðið / mbl.is, 3. september 2019.

Morgunbladid-03-09-2019