Fréttasafn25. jún. 2019 Almennar fréttir Hugverk Menntun

92 vilja komast í tölvuleikjanám hjá Keili

Keili bárust 92 umsóknir í nýja námsleið til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt nám er í boði en það hefur verið nokkur ár í burðarliðnum. Mennta- og menningarmálaráðherra veitti skólanum leyfi til inntöku allt að 45 nýnema á næstu haustönn.

Samtök iðnaðarins hafa lagt áherslu á aukningu útflutningstekna og að hugvitsdrifið hagkerfi festist í sessi og er þessi námsleið í takti við þær áherslur. Leikjaiðnaðurinn hefur nú þegar náð miklu árangri og skapað auknar útflutningstekjur. Nám í tölvuleikjagerð er lykilþáttur í að Ísland nái enn meiri árangri á þessu sviði og að útflutningstekjur vaxi enn frekar. Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI), sem er aðili að Samtökum iðnaðarins, munu veita faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins.