95% félagsmanna SIV telja að fyrirsjáanleika skorti
Samkvæmt könnun sem lögð var fyrir félagsmenn Samtaka innviðaverktaka (SIV), áður Félag vinnuvélaeigenda, telja 95% að fyrirsjáanleika skorti í opinberum innviðaframkvæmdum. Þetta kemur meðal annars fram í viðtali Viðskiptablaðsins við Vilhjálm Þór Matthíasson, formann Samtaka innviðaverktaka og framkvæmdastjóra Malbikstöðvarinnar, sem segir mörg þúsund manns vinna við innviðauppbyggingu á Íslandi en hátt í 60 fyrirtæki eru aðilar að SIV. „Eins og hver önnur fyrirtæki á Íslandi þá rekum við okkar fyrirtæki og byggjum það upp en erum samt undir hælnum á stjórnvöldum hvað þeir ákveða að setja mikla peninga á hverju ári í innviðauppbyggingu. Það versta fyrir okkar geira eru skyndiákvarðanir, skyndilega teknar til baka miklar upphæðir og enginn fyrirsjáanleiki. Okkar geiri er notaður sem sveiflujöfnunartæki þannig ef eitthvað kemur upp þá er svo auðvelt að stroka út peningana sem fara í að gera upp vegina eða viðhalda húsnæði, eða hvað það er, með auknum kostnaði inn í framtíðinna vegna þess að þá skemmast hlutirnir, eins og við höfum orðið vitni að.“
Vilhjálmur Þór segir einnig að stjórnvöld þurfi að tryggja að opinberir verkkaupar geti sett fram áreiðanlegar áætlanir sem hægt er að fylgja eftir og í því samhengi séu til að mynda mikil vonbrigði að Alþingi hafi ekki afgreitt samgönguáætlun fyrir sumarið. Þörfin sé brýn en uppsöfnuð viðhaldsþörf sé þegar mikil víða, í vegakerfinu sé hún metin á um 180 milljarða. „Það er næstum því nýi Landspítalinn sem er búið að sleppa að setja í viðhald á vegum síðustu ár en verður að gera, plús það sem safnast upp jafnóðum. Þannig að fjármagnið sem þarf til að halda bara við því sem við eigum áður en það skemmist, það er ekki verið að gera það,“ segir Vilhjálmur Þór meðal annars í Viðskiptablaðinu og segir jafnframt að ljóst sé að bæta þurfi forgangsröðun.
Viðskiptablaðið / vb.is, 17. júlí 2024.