Fréttasafn



28. nóv. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Á risavöxnum húsnæðismarkaði vantar meiri yfirsýn

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var meðal frummælenda á Húsnæðisþingi sem haldið var á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Sigurður hrósaði Íbúðalánasjóði fyrir gagnlega og yfirgripsmikla skýrslu sem gefin var út á Húsnæðisþingi. Hann sagði að með fjölgun landsmanna og lýðfræðilegum breytingum þurfi að byggja 55 þúsund íbúðir til ársins 2050 eða tæplega tvö þúsund íbúðir á ári. Of lítið hefði verið byggt undanfarinn áratug og það hefði m.a. leitt til verðhækkana á húsnæði með tilheyrandi ólgu á vinnumarkaði. Heildarmat fasteigna sé yfir 9.000 milljarða króna árið 2020 og það skjóti skökku við að á þessum risavaxna markaði sé ekki meiri yfirsýn en raun beri vitni. 

Sigurður ræddi einnig um mikilvægi þess að stjórnsýslan væri skilvirkari í húsnæðismálum og að auka þyrfti yfirsýn allra þeirra hagaðila sem koma að húsnæðisuppbyggingu hér á landi. Hann sagði aðgerðir sem kynntar hefðu verið á fundi Byggingavettvangsins fyrri skömmu vera mestu umbætur sem gerðar hafa verið á húsnæðismarkaðnum í áraraðir en að Byggingavettvanginum standa Samtök iðnaðarins, Íbúðalánasjóður, Framkvæmdasýsla ríkisins, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga. Með aðgerðunum væru stefnt að einföldun regluverks og aðgengi að betri upplýsingum. Þetta komi í kjölfar vinnu átakshóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem skilaði tillögum í byrjun þessa árs. Sigurður sagðist vonast til þess að fundarmenn væru sammála um að þetta væri síðasti átakshópurinn sem þyrfti að stofna um vanda á húsnæðismarkaði. Þá sagði hann að yfirsýn væri að aukast þegar búið væri að færa byggingarmál ásamt húsnæðismálum í félagsmálaráðuneytið auk þess sem öflug stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, verður til um áramótin við sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar þar sem unnið verði að greiningum, söfnun og miðlun upplýsinga. Hann sagði að með innleiðingu byggingagáttar væri stigið mikilvægt skref í stafrænni stjórnsýslu sem markaði þáttaskil en ekki mætti gleyma hlut þeirra 72 sveitarfélaga sem starfa hringinn í kringum landið. Sigurður nefndi að auka þyrfti samræmingu í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga og auka skilvirkni hjá þeim.

Í niðurlagi erindis síns sagði Sigurður að nauðsynlegar og tímabærar umbætur væru við sjóndeildarhringinn en svo þær megi verða að veruleika þurfi hver og einn að spyrja sig að því hvað hann geti gert betur. Þannig breytist menningin, umbætur eiga sér stað, húsnæði verður hagkvæmara, uppbygging skilvirkari og markaðurinn stöðugri. Það sé leiðin fram á við.

Hér er hægt að nálgast upptöku frá fundinum.

DSC_6517Sigurður Hannesson, formaður SI.

Mynd-yfir-salinn-1Húsnæðisþingið fór fram á Hilton Reykjavík Nordica.