Fréttasafn



6. maí 2020 Almennar fréttir

Á síðasta ári var besta ávöxtun fjáreigna í sögu samtakanna

Í Markaðnum í dag er greint frá því að Samtök iðnaðarins hafi skilað rúmlega 940 milljóna króna hagnaði í fyrra borið saman við 64 milljóna hagnað á árinu 2018. Hagnaðurinn næstum fimmtánfaldaðist því á milli ára en þar munaði mestu um að ávöxtun fjáreigna var sú besta í sögu samtakanna, að sögn Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI. 

Í fréttinni kemur fram að fjármunatekjur á síðasta ári hafi numið samtals 1.131 milljón króna og aukist um meira en 800 milljónir frá fyrra ári. Verðbréfaeign SI hafi numið rúmlega 5,6 milljörðum króna í árslok 2019 borið saman við tæplega 4,4 milljarða árið áður. Þar segir að Akkur SI, dótturfélag Samtaka iðnaðarins, haldi utan um þær eignir samtakanna. 

Sigurður segir í samtali við Markaðinn að eignasafn Akks sé vel dreift í innlendum hlutabréfum og erlendum skuldabréfum og að félagið eigi hlut í mörgum skráðum félögum á Íslandi. Þá segir að heildartekjur SI hafi numið ríflega 420 milljónum króna í fyrra og samanstaðið fyrst og fremst af tekjum árgjalda aðildarfélaga, eða 396 milljónir, og jukust um 45 milljónir króna á milli ára. 

Jafnframt er haft eftir Sigurði í fréttinni að á aðalfundi samtakanna í liðinni viku hafi verið ákveðið að veita aðildarfélögum SI afslátt af þeim gjöldum vegna erfiðleikanna sem nú blasi við í íslensku efnahagslífi. Rekstrargjöld samtakanna drógust saman um liðlega 40 milljónir á síðasta ári og námu samtals 611 milljónum. Sigurður segir að sú lækkun sé til marks um að þær hagræðingaraðgerðir sem gripið hafi verið til árið 2017 hafi skilað sér að fullu. Stærsti útgjaldaliður samtakanna séu laun og launatengd gjöld en þau hafi verið um 292 milljónir á árinu 2019 og staðið nánast í stað á milli ára. Samtals hafi verið 17 stöðugildi hjá samtökunum í lok síðasta árs. 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 6. maí 2020.