Fréttasafn



18. ágú. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Ábendingar fyrir Hönnunarverðlaun Íslands

Ábendingar fyrir Hönnunarverðlaun Íslands og Bestu fjárfestingu í hönnun er hægt að senda inn fram til miðnættis 5. september næstkomandi. Verðlaunin verða afhent í október. Hér er hægt að senda inn ábendingar.

Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða -stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Hönnuðir þurfa að vera fagmenn á sínu sviði til að hljóta verðlaunin. Vinningshafar geta komið úr öllum greinum hönnunar og arkitektúrs og þurfa að skara verulega úr með verkefni sínu eða vinnu. Ný verk eru verk sem lokið hefur verið við á síðustu þremur árum fyrir afhendingu verðlaunanna. Hönnunarverðlaun íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, sem hafa verið veitt af ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning veitt fyrirtæki sem hefur með eftirtektarverðum hætti fjárfest í hönnun og arkitektúr eða innleitt aðferðir hönnunar í starfsemi sína. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna hafa hönnun og arkitekúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina. Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt var í fyrsta sinn 2015. 

Í dómnefnd sitja Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og formaður dómnefndar, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt og deildarforseti arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður, Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður og framkvæmdarstjóri Edelkoort Inc., Paul Bennett, Chief Creative Officer hjá IDEO, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, almannatengsla - og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins. 

Á myndinni hér fyrir ofan afhendir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, viðurkenninguna fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. 

Margrét Harðardóttir og Steve Christer hjá arkitektastofunni Studio Granda hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2020 fyrir verkefnið Drangar. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, afhenti viðurkenninguna. 


Hönnunarfyrirtækið 66°Norður hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2020.