Fréttasafn



1. okt. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Að reisa fjórðu stoðina er plan A

Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir á Morgunvakt Rásar 1 ræddu við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um stöðuna í efnahagslífinu og leiðina fram á við. Þar segir Sigurður meðal annars að vegna kórónuveirunnar sem hefur breitt sig yfir heiminn og Ísland sé þar enginn undantekning hrikti í tveimur stoðum, ferðaþjónustunni og orkusæknum iðnaði. „Þannig að sú spurning sem við veltum fyrir okkur um áramótin hver yrði drifkraftur vaxtar er orðin enn áleitnari.“ Hann segir að auðvitað þurfi viðspyrnu núna til skemmri tíma. „Það er ýmislegt hægt að gera til þess en það þarf að hugsa lengra fram í tímann. Það þarf að reisa fjórðu stoðina sem byggir þá á hugviti og nýsköpun. Það að reisa fjórðu stoðina á að vera plan A, það á að vera í algjörum forgangi hjá okkur. Það á að vera atvinnustefna stjórnvalda að sú stoð fái vaxið og dafnað og nái að skjóta rótum. Auðvitað verðum við að hlúa að öllu hinu um leið, þetta skiptir okkur allt máli. Hvert einasta starf skiptir máli og hver einasta króna sem er sköpuð. En þetta er stóra verkefnið. Þess vegna orðaði ég það þannig að ferðaþjónustan og aðrar greinar þar á undan hefðu fengið of mikið pláss, of mikið vægi hjá stjórnvöldum. Tækifærin fara forgörðum.“

Tækifæri sem blasti við en við hikuðum og töpuðum

Sigurður nefnir dæmi um tækifæri sem hefði verið hægt að grípa en fór forgörðum. „Fyrir fimm árum síðan þá var staðan sú að gagnaveraiðnaður var að vaxa hratt á heimsvísu. Þar höfum við náttúrulegt forskot sem felst í veðurfarinu vegna þess að það er notuð mikil raforka í þeim iðnaði, aðallega til kælingar, þess vegna eru aðstæður hér hagfelldar. En það þurfti að gera ýmsar breytingar, ekki síst á regluverki. Vegna þess að regluverkið gerir ekkert endilega ráð fyrir nýjum greinum. Það dugir fyrir það sem það er smíðað fyrir en ekki það sem að kemur. Þannig að raforkuumgjörðin gerir ekkert endilega ráð fyrir notendum af þessu tagi, skattaumhverfið gerir ekki endilega ráð fyrir ýmsum tilvikum þarna sem þurfti þá að hnika til.“

Hann nefnir einnig gagnatengingar og að gera þurfi nýjan streng sem eigi að gera núna. „Þannig að þetta tækifæri blasti við okkur en við hikuðum og við töpuðum. Önnur ríki í kringum okkur, Noregur, Svíþjóð, Danmörk, stjórnvöld þar fóru á fullt við að vinna í þessum umbótum hjá sér og ekki nóg með það heldur að sækja tækifærin og byggja upp.“

Þá vísar Sigurður í fréttir um fyrirtækið Google sem sé að opna starfsemi gagnavera í Danmörku. „Fjárfesting sem skilar sér inn í hagkerfið í Danmörku nemur hátt í 800 milljónum evra sem eru yfir 100 milljarðar. Það sem skilar sér svo árlega inn í danskt hagkerfi næstu fimm árin eru 80 milljónir evra eða yfir 10 milljarðar króna, þannig að þetta eru engar smá fjárhæðir.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.