Fréttasafn



24. júl. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Aðrar forsendur fyrir hækkun íbúðaverðs

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI, segir í samtali við Fréttablaðið að heimilin ættu ekki að vera eins viðkvæm fyrir verðfalli á markaðnum en reginmunur sé á núverandi uppsveiflu á íbúðamarkaði og þeirri síðustu sem var á árunum fyrir fall bankanna þar sem nú sé hækkandi íbúðaverð ekki drifið áfram af óhóflegri skuldsetningu heimilanna. Hann segir að á árunum fyrir hrun hafi veðsetningarhlutföll og hámarkslán verið hækkuð úr hófi fram og fjármálastofnanir stigið á bensíngjöfina, ef svo má segja. Það hafi þrýst íbúðaverði upp. Allt aðrar forsendur séu fyrir hækkun íbúðaverðs nú en samkvæmt nýjum reglum Fjármálaeftirlitsins (FME) má ekki lána fyrir meira en 85% af markaðsverði fasteignar. Við kaup á fyrstu fasteign er þó heimilt að lána allt að 90%.

Í viðtalinu segir Ingólfur raunverð húsnæðis standa hátt sögulega séð. Það hafi hækkað talsvert umfram undirliggjandi áhrifaþætti, eins og til dæmis kaupmáttarvöxt, að undanförnu, en stór hluti skýringarinnar sé viðvarandi skortur á framboði nýrra íbúða. „Það eru því viss hættumerki til staðar. Í því ljósi er það ábyrgðarefni að lána með mjög litlu eigin fé. Þá getur það gerst að heimili, sem taka lán fyrir slíkum fasteignakaupum, verði miklu viðkvæmari fyrir niðursveiflunni þegar að henni kemur.“ 

Hann segir veðsetningarhlutfallið þó aðeins eina hlið málsins og líta þurfi einnig til greiðslubyrðarinnar. Haft er eftir Ingólfi að oft sé sagt að það skipti ekki höfuðmáli þótt eigið fé í húsnæði verði neikvætt um tíma, en það sem sé alvarlegt er þegar lántakendur geti ekki staðið við afborganir sínar þegar að niðursveiflunni í efnahagslífinu kemur. Að því leyti þurfi að hafa varann á og tryggja að greiðslumat byggist á raunhæfum áætlunum en skýr merki séu um að greiðslumöt fjármálastofnana séu stífari en áður og það geti verið hluti ástæðunnar fyrir því að útlánavöxtur hafi ekki verið eins ör og í síðustu uppsveiflu.

Nánar á Vísi.